,,Við eigum að gera ófrávíkjanlega kröfu um að bankanum verði breytt í samfélagsbanka í anda þýsku Sparkasse bankanna sem hafa það hlutverk að þjóna og styðja við sitt nærumhverfi, einstaklinga, fjölskyldur og smærri og meðalstór fyrirtæki. Þetta er risastórt hagsmunamál fyrir almenning og fyrirtækin.“
Ragnar Þór Ingólfsson lýsir yfir furðu sinni á þeirri ákvörðun Landsbanka Íslands, að velja dýrustu byggingarlóð á Íslandi undir starfsemi ríkisbankans og að greiddir séu 9 milljarðar* fyrir jafn stóra byggingu og hægt er að fá keypta tilbúna á liðlega 3 milljarða í Kópavogi. *(Það athugist að 9 milljarðar er áætlaður byggingakostnaður, en í ljósi sögunnar, Þegar að ríkið og sveitarfélögin eiga í hlut, þá er raunverulegur byggingakostnaður oft töluvert hærri en lagt var af stað með, eins og hefur verið viðurkennt , í umræðunni að undanförnu).
,,Landsbankinn, banki allra landsmanna, stefnir nú á að byggja 16.500 fm. Höfuðstöðvar á dýrasta byggingareit landsins. Kostnaður við framkvæmdina er varlega áætlaður um 9 milljarðar króna og telur bankinn að hann geti fengið um 2 milljarða fyrir þær eignir sem hann ætlar að selja upp í þann kostnað.
Hvernig í veröldinni getur almenningur sætt sig við að ríkisbanki telur sig þurfa að staðsetja sig á dýrasta stað bæjarins þegar fyrir liggur að glæsileg 16.000 fm. skrifstofubygging í Kópavogi ásamt 9.000 fm. bílakjallara stendur tóm og er til sölu samkvæmt heimasíðu ÞG verktaka á 3,6 milljarða.
Getum við gert þá kröfu, í ljósi sögunnar, að bankar eins og Landsbankinn komi til okkar, niður á jörðina, og fari að vinna af samfélagslegri ábyrgð í stað þess að reisa sér skýjaborgir um hugmyndafræði sem við samfélagið höfum alfarið hafnað.
Við eigum að gera ófrávíkjanlega kröfu um þetta og að bankanum verði breytt í samfélagsbanka í anda þýsku Sparkasse bankanna sem hafa það hlutverk að þjóna og styðja við sitt nærumhverfi, einstaklinga, fjölskyldur og smærri og meðalstór fyrirtæki. Þetta er risastórt hagsmunamál fyrir almenning og fyrirtækin.
Erum við virkilega að kalla eftir sölu bankanna og sömu atburðarrás sem fjármálakerfið kom okkur í sem endaði með ósköpum 2008?
Eða eigum við sem þjóð að standa í lappirnar gegn þessu bulli sem virðist vera að sigla inn á miður kunnuglegar slóðir?“ Segir Ragnar Þór Ingólfsson.