Jóhannes Eðvaldsson, fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta, er látinn sjötugur að aldri. Jóhannes gerði garðinn frægan með stórliði Celtic í Skotlandi á áttunda áratugnum og naut mikillar hylli á meðal stuðningsmanna liðsins. Rúv.is greindi frá andlátnu.
Jóhannes fæddist í Vestmannaeyjum árið 1950 og sleit fótboltaskónum með Val. Hann reyndi 22 ára fyrir sér í atvinnumennsku í Suður-Afríku með Cape Town City í Höfðaborg. Eftir stutta dvöl hjá Metz í Frakklandi og svo Holbæk í Danmörku gekk Jóhannes til liðs við Celtic í Skotlandi árið 1975.
Jóhannes átti svo fimm ára afar farsælan feril með skoska stórliðinu og gekk undir gælunafninu „Big Shuggy“ hjá aðdáendum liðsins. Hann skoraði 36 mörk á ferli sínum hjá Celtic í 188 leikjum og þótti afar fjölhæfur leikmaður sem gat leyst flestar stöður.
Jóhannes vann tvo Skotlandsmeistaratitla með Celtic og einn bikarmeistaratitil en hélt svo til Bandaríkjanna 1980. Hann lék svo einnig með Hannover 96 í Þýskalandi og Motherwell í Skotlandi áður en atvinnumannsferlinum lauk 1984.
Jóhannes lék 34 landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim tvö mörk. Hann var bróðir Atla Eðvaldssonar, fyrrverandi landsliðsfyrirliða, en Atli lést 2019. Jóhannes lætur eftir sig eiginkonu, Catherine Bradley, og fjögur börn.