Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við slæmu veðri á morgun, þegar kröpp lægð kemur upp að landi, með suðaustan stormi og rigningu í nótt og suðvestan stormi eða roki (20-28 m/s) með skúrum, slydduéljum eða éljum í fyrramálið. Fyrst suðvestan- og vestanlands en austantil eftir hádegi. Fólki er bent á að fylgjast vel með viðvörunum vegna veðurs.
Hugleiðingar veðurfræðings
Í dag er útlit fyrir hæga vestlæga átt, úrkomulítið og kalt veður en svo dregur til tíðinda í kvöld. Skammt suður af Hvarfi er víðáttumikil lægð sem dýpkar á hraðri leið til norðurs. Í kvöld hvessir af suðaustri með rigningu á sunnan og vestanverðu landinu og hlýnar, en í fyrramálið er útlit fyrir suðvestan storm eða rok, fyrst með rigningu á sunnanverðu landinu en síðan vestlægari átt og éljum og hríðarveðri á norðvestan og norðanverðu landinu seint á morgun. Þá er útlit fyrir að hvessi mikið úr vestri á Austfjörðum seint á morgun og annað kvöld. Veðrið gengur að mestu niður aðfaranótt miðvikudags, en á fimmtudag er næsta lægð væntanleg, og ekki annað að sjá en fleiri komi í kjölfarið.
Veðurhorfur á landinu
Suðvestan 3-10 og skýjað með köflum. Stöku él suðvestantil annars þurrt að kalla. Frost 0 til 10 stig, kaldast í innsveitum. Vaxandi suðaustanátt 8-15 m/s í kvöld og slydda eða rigning en úrkomulítið norðaustantil.
Gengur í suðvestan 15-23 m/s í fyrramálið með rigningu eða slyddu. Hvassast með suðurströndinni. Snýst í vestan og síðan norðvestan 20-28 m/s eftir hádegi. Áfram rigning,en síðan slyddué eða él og kólnandi veður. Heldur hægari og úrkomulítið nyrst fram á kvöld. Lægir vestantil annað kvöld.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag:
Fremur hæg sunnanátt, lítilsháttar snjókoma sunnan- og vestanlands en annars bjart með köflum en allhvöss vestanátt austast um morguninn. Frost 0 til 8 stig.
Á fimmtudag:
Vestlæg átt 8-15 m/s og él, en hægari og bjart með köflum fyrir austan. Vaxandi sunnanátt og þykknar upp með snjókomu vestantil um kvöldið. Frost 0 til 8 stig.
Á föstudag:
Ákveðin austan- og suðaustanátt. Víða rigning eða slydda en snjókoma norðan- og austanlands. Hlýnar heldur í veðri, einkum sunnantil en snýst í vestlæga átt og kólnar seint um kvöldið.
Á laugardag:
Líkur á vestlægri átt með éljum, einkum norðan- og vestantil. Frost um allt land.
Á sunnudag:
Útlit fyrir vestlæga átt með éljum en úrkomuítið fyrir austan. Frost 0 til 12 stig, kaldast inn til landsins norðaustantil. Spá gerð: 24.01.2022 09:15. Gildir til: 31.01.2022 12:00.