Bjarni Benediktsson var gestur í Silfrinu á mánudagskvöld. Þar var hann m.a. spurður út í Facebook-status sinn sem vakti mikla athygli. Bjarni fór yfir málefni í hælisleitendamálum á Íslandi og bar saman fjölda hælisumsókna á Íslandi saman við tölur á öðrum Norðurlöndunum. Bjarni sagði að Ísland hefði margfalt fleiri umsóknir en nágrannaþjóðir okkar til afgreiðslu. ,,Eins hafi Ísland fengið á síðasta ári fleiri umsóknir frá Palestínu en hin Norðurlöndin til samans.“ Bjarni ítrekaði mikilvægi þess að unnt sé að ræða útlendingamál af yfirvegun og án upphrópana. Hér að neðan er færsla Bjarna í heild sinni:
,,Hettuklæddir menn slettu rauðri málningu á bygginguna“
Við búum í lýðræðisríki. Það er einkenni slíkra ríkja að þar skiptist fólk á skoðunum og þykir það styrkja alla ákvarðanatöku og yfir lengri tíma leiða til mestrar farsældar. Enda eru það almennt lýðræðisríki heims sem tryggja íbúum sínum best lífskjör.
Um þessar mundir er mikil skautun umræðunnar orðin vaxandi áhyggjuefni víða í Evrópu og Bandaríkjunum. Hefur sú þróun ítrekað orðið að umræðuefni á fundum mínum með utanríkisráðherrum vina- og samstarfsþjóða. Nú er svo komið að ég tel að við þurfum að hafa raunverulegar áhyggjur af þessu sama á Íslandi.
Fyrir helgi gangrýndi ég ákvörðun Reykjavíkurborgar um að láta það viðgangast svo vikum skipti að fólk dveldist dag og nótt í tjöldum á Austurvelli. Ég er þeirrar skoðunar að það sé algjörlega óásættanlegt að mótmælendur tjaldi og gisti á Austurvelli um lengri tíma. Mér heyrist að borgarstjóri sé loks kominn á þá skoðun einnig. Ég er sömuleiðis alfarið á móti því að erlendir þjóðfánar blakti fyrir framan þjóðþingið daga og nætur vikum saman.
Fólki er frjálst að hafa á þessu aðrar skoðanir. Og sannarlega getur fólk einnig verið ósammála mér um að hælisleitendakerfi okkar sé komið í mikinn vanda, bæði hvað varðar kostnað og innviði samfélagsins.
En það er í mínum huga algjört þrot lýðræðislegrar umræðu þegar sagt er að þessi sjónarmið sýni skort á samúð og skilningi á aðstæðum fólks í viðkvæmri stöðu. Ég hef þvert á móti ítrekað lýst samúð okkar og skilningi á stöðu fólks sem lifir í ótta um afdrif ættingja sinna á fjarlægum slóðum. Ísland hefur beitt sér af krafti alls staðar sem því er við komið og við höfum ekki látið okkar eftir liggja í mótttöku og stuðningi við fólk frá Gaza – þvert á móti.
Þeir sem lengst ganga segja færslu mína fyrir helgi vera hreina útlendingaandúð. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins segir Sema Erla Serdaroglu, aðjúnkt við Háskóla Íslands og stofnandi Solaris, að ég hafi uppi óhróður um hóp fólks og sé í reynd að hvetja til andúðar og ofbeldis.
Hér erum við komin með ágætt dæmi um skautun í opinberri umræðu þar sem ábendingar um augljósa galla í hælisleitendakerfinu leiða til ásakana um skort á allri samkennd, rasisma og hvatningu til ofbeldis.
Það fjölgar hratt í hópi fólks sem segir við mig að orðfærið sem nú tíðkast sé orðið svo grimmilegt að það veigrar sér við að opinbera skoðanir sínar á hinum ýmsu málum. Ekki síst á þetta við á samfélagsmiðlum. Það er við slíkar aðstæður sem hætt er við að upp úr sjóði og raunverulegar öfgar, sem við höfum blessunarlega verið að mestu laus við á Íslandi, geri vart við sig.
Í lýðræðisríki verða skoðanaskipti að geta átt sér stað. Allir sem vilja leggja sitt af mörkum til að bæta samfélagið ættu að vera sammála um mikilvægi heilbrigðra skoðanaskipta þótt orðaskipti megi vel vera hvöss. Ásakanir aðjúnkts í Háskóla Íslands um að ég hafi mögulega gerst brotlegur við almenn hegningarlög með því að segja skoðun mína á stöðu mála á Austurvelli og almennt í hælisleitendamálum eru fráleitar og dæma sig sjálfar.
Þessar skoðanir mínar hafa ekkert með réttinn til að mótmæla og veita stjórnvöldum aðhald að gera. Það eru grundvallarréttindi og snar þáttur í framkvæmd lýðræðisins. Þann rétt mun ég ávallt verja.
En eins og flest önnur réttindi eiga þau sér takmörk. Ég legg áherslu á að fólk haldi sig innan ramma laganna. Að sletta málningu á opinberar byggingar er til dæmis skýrt lögbrot. Í morgun þurfti að afmá ummerki skemmdarverka á Utanríkisráðuneytinu. Tveir hettuklæddir menn mættu þangað snemma morguns og slettu rauðri málningu á bygginguna. Hreinsun er lokið og málið til meðferðar hjá lögreglu. Svona framkoma er ólíðandi og á ekkert skylt við þau sjálfsögðu réttindi í lýðræðisríki að fólk komi saman og mótmæli, eins og nú er boðað að gerist klukkan 15 fyrir framan þinghúsið.
Meðfylgjandi mynd er af tjaldi við Austurvöll.