Lungnaormurinn Crenosoma vulpis greindist í sýni úr hundi sem fluttur var til landsins fyrir ári síðan. Um er að ræða sníkjuþráðorm sem fer í lungu hýsilsins, sem oftast er refur og því er sníkjudýrið oft nefndur „lungnaormur refsins“. Þessi tegund lungnaorms hefur ekki fundist áður hér á landi.
Eigandi hundsins flutti hann inn frá Svíþjóð fyrir ári síðan, en engin sníkjudýr greindust í sýnum sem tekin voru meðan hundurinn dvaldi í einangrun. Síðsumars fór að bera á hósta hjá hundinum sem ekki batnaði þrátt fyrir ýmiskonar meðhöndlun gegn bólgum og bakteríusýkingum. Í byrjun árs var þá tekið barkaskol á Dýraspítalanum í Garðabæ fyrir strok og ræktun og var sýnið sent á rannsóknarstofu erlendis (IDEXX).
Niðurstaðan benti til lungnaorms en tegund var ekki greind. Matvælastofnun gaf þá eigandanum fyrirmæli um að halda hundum sínum í heimaeinangrun. Saursýni voru tekin úr hundinum og öðrum hundum á heimilinu og þau send til rannsóknar á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Sérfræðingar þar greindu að um Crenosoma vulpis væri að ræða.
Ekkert smit greindist í öðrum hundum á heimilinu. Þessi tegund lungnaorms hefur aldrei greinst áður á Íslandi, hvorki í hundum í einangrun né í hundum eða öðrum dýrum hér á landi. Meðhöndlun hófst um leið og niðurstaða greiningar lá fyrir, og voru allir hundar heimilisins meðhöndlaðir til öryggis. Hundunum verður haldið í heimaeinangrun þangað til meðhöndlun er lokið og lirfur finnast ekki lengur í saursýnum.
Þessi lungnaormur finnst víða í Evrópu, Norður-Ameríku, Kanada, Alaska og Asíu. Í fyrra greindist hann í fyrsta skipti í einu ríki Afríku og nú í fyrsta sinn á Íslandi. Crenosoma vulpis sýkir bæði refi og hunda og er víða landlægur í rauðrefum. Millihýslar ormsins eru ýmsar sniglategundir. Ormurinn er ekki sértækur á sniglategundir og hugsanlegt er að íslenskar sniglategundir gætu hentað sem millihýslar. Talið er að smit berist í hunda þegar þeir éta smitaða snigla, eða slím frá sniglum (sem t.d. halda sig í grasi) en smit getur ekki borist beint frá hundi til hunds. Fólki stafar ekki hætta af lungnaorminum.
Algengustu einkenni lungnaormasýkingar eru krónískur hósti, oft í hvíld, sem getur endað í uppköstum, mögulega einnig nefrennsli og hnerri. Lungnaormurinn heldur til í berkjum lungnanna og valda oft vægum bólgueinkennum í berkjunum. Örugg greining fæst með því að finna lirfur lungnaormsins í saursýni.
Árlega eru 150-250 hundar fluttir til Íslands og við komu þeirra í einangrun eru tekin sýni sem rannsökuð eru m.a. með tilliti til sníkjudýra. Ýmis sníkjudýr greinast reglulega í þessum sýnum og meðhöndlun fer þá fram á meðan á einangrun stendur. Með þessu móti er útbreiðsla smits inn í landið hindruð eins og kostur er. Þetta tilfelli sýnir þó að einstaka dýr smituð með sníkjudýrum, geta sloppið ógreind í gegn um einangrun þar sem útskilnaður sníkjudýra í saur getur gengið í bylgjum.
Vel verður fylgst með heilsufari viðkomandi hunds og allar nauðsynlegar ráðstafanir gerðar til þess að uppræta smitið. Eigendur hunda með ógreindan krónískan hósta, eru hvattir til að leita til dýralæknis til skoðunar og mögulega taka saursýni til að útiloka að um sníkjudýr sé að ræða sem orsakavald.