Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórann á Suðurnesjum og Veðurstofu Íslands, lýsir yfir hættustigi almannavarna vegna öflugrar jarðskjálftahrinu sem nú gengur yfir á Reykjanesi.
Hættustig almannavarna er sett á til að samhæfa aðgerðir og verklag ýmissa verklagsaðila og stofnana og hefur ekki áhrif á almenning. Hættustig er sett á ef heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða mannavöldum þó ekki svo alvarlegar að um neyðarástand sé að ræða.
Skjálfti af stærð 5.7 mældist um 3.3 km SSV af Keili á Reykjanesi kl. 10:05. Upptök skjálftanna eru á um 20 km. kafla frá Grindavíkurvegi að Kleifarvatni. Fjöldi eftirskjálfta hefur fylgt og hefur sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofu Íslands numið alls 12 skjálfta yfir 4 að stærð frá því hrinan hófst.
Síðasti skjálfti mældist 4.8 að stærð kl. 12:37. Skjálftarnir hafa fundist víða á Suðvesturhorninu og allt norður í Húnaþing og vestur á Ísafjörð. Varað er við grjóthruni á Reykjanesskaga á meðan á hrinunni stendur. Unnið er að nánari yfirferð á skjálftavirkni. Athugið að skjálftavirknin er bundin við Reykjanesskaga. Aðrar staðsetningar á skjálftum eru óáreiðanlegar. Engin merki eru um gosóróa á svæðinu.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fylgist vel með í samvinnu við lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og Veðurstofu Íslands.
Lögreglan á Suðurnesjum fer núna um svæðið til að kanna áhrif skjálftans. Þá hefur áhöfn á þyrlu Landhelgisgæslunnar flogið yfir Reykjanes til að kanna aðstæður.
Grjót hefur hrunið úr fjöllum á Reykjanesi og hvítir gufustrókar á jarðhitasvæðum hafa sést á svæðinu.
Veðurstofa Íslands hefur hækkað litakóða fyrir flug á Reykjanesi yfir á gult og er það samkvæmt verklagsreglum.
Almannavarnadeild hvetur fólk á þekktum jarðskjálftasvæðum til kynna sér varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta á heimasíðu almannavarna: https://www.almannavarnir.is/natturuva/jardskjalftar/varnir-gegn-jardskjalfta/
Þar er einnig að finna leiðbeiningar um viðbrögð eftir jarðskjálfta: https://www.almannavarnir.is/natturuva/jardskjalftar/eftir-jardskjalfta/
Myndir sem áhöfn á þyrlu Landhelgisgæslunnar tóku í morgun.