Ályktun miðstjórnar ASÍ um fjármálaáætlun 2019-2023
,,Þessi stefna ríkisstjórnarinnar mun klárlega torvelda gerð kjarasamninga á komandi misserum.“
Miðstjórn ASÍ lýsir miklum vonbrigðum með fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára og gagnrýnir harðlega þær áherslur sem þar eru kynntar.
Á undanförnum árum hefur ASÍ lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að velferðarkerfið verði endurreist og dregið verði úr skattbyrði þeirra tekjulægstu með því að ráðstafa í það mikilvæga verkefni auknum tekjum ríkisins vegna hagvaxtar.
Þannig væri hægt að auka sátt í samfélaginu og tryggja að á næstu fimm árum verði hlutdeild velferðar af landsframleiðslu komin á svipað stig og var fyrir hrun.
Með þessari fjármálaáætlun til næstu fimm ára ákveður ríkisstjórnin að veikja tekjustofna við brothættar efnahagshorfur og draga úr stuðningi í formi barnabóta og vaxtabóta.
Einnig er of lítið gert í að mæta alvarlegum vanda á húsnæðis-markaði og fyrirséð að ekki verði byggt nægilega mikið til að mæta fyrirliggjandi þörf.
Þing ASÍ hafa ítrekað ályktað um að forsenda þess að hér verði hægt að þróa og útfæra samningamódel að Norrænni fyrirmynd væri að velferðarkerfið verði þróað nær því kerfi sem frændur okkar hafa byggt upp.
Miðstjórn ASÍ áréttar að um þessa leið ríkisstjórnarinnar verður ekki nein sátt. ASÍ ákvað að skipa ekki fulltrúa í Þjóðhagsráð vegna þess að of naumt væri skammtað til velferðar- og menntamála. Þessi stefna ríkisstjórnarinnar mun klárlega torvelda gerð kjarasamninga á komandi misserum.