Hörður Sigurgestsson, fyrrverandi forstjóri Eimskipafélags Íslands, lést að morgni annars í páskum, rúmlega áttræður. Hann fæddist í Reykjavík 2. júní 1938.
Hörður lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 1958 og viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands 1965. Hann lauk MBA-prófi 1968 frá Wharton School, University of Pennsylvania í Bandaríkjunum. Á árunum 1965-1966 var hann fulltrúi framkvæmdastjóra hjá Almenna bókafélaginu.
Hann var ráðinn til starfa í fjármálaráðuneytinu, fjárlaga- og hagsýslustofnun, 1968 og var þar til 1974. Þá varð hann framkvæmdastjóri fjármálasviðs Flugleiða og gegndi því starfi þar til hann var ráðinn forstjóri Eimskipafélags Íslands árið 1979. Hann lét af starfi forstjóra árið 2000. Hann sat í stjórn Flugleiða 1984-2004, þar af sem formaður 1991-2004. Hörður tók um skeið virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins, sat í stjórn SUS, í stjórn Varðar og í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Þá var hann formaður stúdentaráðs 1960-1962.
Hörður sat í mörgum stjórnum, nefndum og ráðum fyrir hið opinbera, einkafyrirtæki og félagasamtök. Nefna má setu í stjórnum Stjórnunarfélagsins, Verslunarráðsins, Vinnuveitendasambandsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar, þar sem hann var formaður um skeið. Hörður lét sér mjög annt um málefni Háskóla Íslands. Hann sat í háskólaráði sem fulltrúi þjóðlífs skipaður af menntamálaráðherra 1999-2003 og var formaður stjórnar Landsbókasafns-Háskólabókasafns frá 2003-2008. Í nóvember 2008 var hann gerður að heiðursdoktor við Háskóla Íslands.
Eftirlifandi eiginkona Harðar er Áslaug Ottesen bókasafnsfræðingur, f. 1940. Börn þeirra eru Inga, f. 1970, og Jóhann Pétur, f. 1975. Barnabörnin eru fimm.