Nú eru margir búnir að átta sig á því að kórónuveirufaraldurinn sé að leiða af sér eina mestu efnahagskrísu í meira en öld, jafnvel þá almestu. Bretar gera nú ráð fyrir að niðursveiflan verði sú mesta í meira en 300 ár, eða frá árinu 1709. Það ár var frost langt fram á sumar um alla Evrópu (nema á Íslandi), því fylgdi svo veirufaraldur og loks hungursneyð.
Sem betur fer erum við betur í stakk búin til að takast á við hamfarir nú en á öldum áður en þó sýnir kórónuveirufaraldurinn hversu berskjölduð við erum fyrir duttlungum náttúrunnar.
Þótt efnahagsleg niðursveifla nú verði sú mesta í 100 eða jafnvel 300 ár er ekki þar með sagt að kreppan verði eins langvarandi og margar þeirra sem riðið hafa yfir á þeim tíma. En þá skipta viðbrögðin sköpum. Mörg dæmi eru um að viðbrögðin við krísuástandi hafi valdið meira tjóni en sjálf krísan.
Nú þurfa stjórnvöld um allan heim að grípa til ráðstafana sem taka mið af umfangi vandans og eru til þess fallnar að leysa hann, eða að minnsta kosti milda áhrifin eins mikið og hægt er. Engin lausn verður fullkomin en gölluð ráð í tíma tekin skila meiri árangri og kosta minna en hárétt ákvörðun sem tekin er þegar það er orðið of seint.
Óvenjulegar vandamál kalla á óvenjulegar lausnir og fordæmalaus vandamál kalla á fordæmalausar lausnir. Sem betur fer búum við Íslendingar að þeirri reynslu að hafa, fyrir aðeins fáeinum árum, leyst fordæmalausan vanda með fordæmalausum lausnum. Aðferðirnar sem notaðar voru til að taka á skuldavanda íslenskra heimila og gera upp bankahrunið höfðu aldrei verið reyndar áður. En þær voru sniðnar að vandanum, umfangi hans og eðli. Afraksturinn varð mesti og hraðasti efnahagslegi viðsnúningur sem nokkurt ríki hefur náð, a.m.k. í seinni tíma sögu.
Sá árangur gerir okkur nú betur kleift en flestum öðrum ríkjum að takast á við hina nýju krísu. Sú lausn verður að byggjast á því að vernda fyrirtæki og störf svo að hagkerfið geti verið fljótt að ná fyrri styrk þegar aðstæður leyfa. Slíkar aðgerðir verða dýrar en til lengri tíma litið yrði miklu dýrara að nýta ekki þau úrræði sem við höfum.
Ef hagkerfi heimsins hefðu verið sjálfbær hefði verið hægt að setja þau í dvala til skamms tíma og endurvekja þau svo aftur án þess að það leiddi til langvarandi kreppu. Hættan er sú að of miklir veikleikar hafi safnast upp of lengi og ástandið nú leiði þá í ljós með öllum þeim afleiðingum sem það hefði. Nefna mætti veika stöðu margra evrópskra banka (sem aldrei hafa almennilega tekið á áhrifum fjármálakrísunnar eftir 2007), veika stöðu margra ríkissjóða og jafnvel gjaldþrota velferðarkerfi.
Sem betur fer er staða okkar betri en margra annarra en þá stöðu þarf að nýta vel nú svo hún verði áfram sterk. Ef svo á að verða duga ekki kerfislausnir. Við þörfum lausnir byggðar á róttækri rökhyggju og það þýðir óvenjulegar lausnir fyrir óvenjulega tíma.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Formaður Miðflokksins