Nýji matvælaráðherrann frá Ólafsfirði hefur greint frá því raunamædd að hún geti ekkert gert til þess að auka hlut strandveiða þar sem hún heldur að hún sé bundin í lög og ráðgjöf. Auðvitað er það einn stór misskilningur enda hafa ráðherrar í gegnum árin aukið við veiðiheimildir þegar þeim hefur svo sýnst.
Matvælaráðherrann hefur ekki notað tíma sinn í ráðuneytinu til þess að auka svigrúm sitt til athafna að neinu leyti heldur hefur hún sjálf sett nýja relgugerð um byggðkvóta Byggðastofnunar. Reglugerðin opnar á að gerðir séu samningar um úthlutun kvóta að upphæð milljarða króna á ári til 6 ára.
Bjarkey er því ekki aðeins að minnka svigrúm sitt heldur að járna niður veiðiheimildir í samninga fram á þar næsta kjörtímabil!
Hvernig sem á það er litið, þá hefur úthlutun Byggðastofnunar verið umdeild, en ef farið er yfir framkvæmdina þá hefur m.a. leitt til þess að afli hefur ekki skilað sér til viðkomandi byggða og flest bendir til þess að hluti kvótans hafi gufað upp á leigumörkuðum. Kvóti Byggðastofnunar hefur lent í höndunum á norskum fiskeldismönnum og ekki einu sinni verið landað í viðkomandi landsfjórðungi.
Ekki verður Bjarkey Olsen sökuð um að hygla sinni brotnu Sjávarbyggð Ólafsfirði, en reglugerðin girðir fyrir að einn sporður lendi á bryggjum Fjallabyggðar.