BSRB telur að gera þurfi breytingar á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2020 til 2024 til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif á starfsmenn ríkisins og á ýmis mikilvæg verkefni ríkisins.
Í umsögn bandalagsins um fjármálaáætlunina kemur fram forsendur hennar geri ráð fyrir umtalsvert meiri launahækkunum á almennum vinnumarkaði en hinum opinbera vegna aðhaldskröfu sem setja eigi á stofnanir ríkisins. BSRB kallar eftir því að þessu verði breytt í áætluninni enda engin umfjöllun í áætluninni um hvernig þessar tölulegu forsendur komu til eða hvernig þær verði útfærðar.
BSRB gagnrýnir einnig að áætlunin geri ráð fyrir því að framlög ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði fryst fyrstu tvö ár áætlunarinnar. „Sú fyrirætlan er ekki til þess fallin að stuðla að jákvæðri heildarafkomu sveitarfélaganna að mati BSRB,“ segir í umsögn bandalagsins. Þar er varað við alvarlegum afleiðingum fyrir kjaraviðræður sem nú eru í gangi, verði þessu ekki breytt.
Bandalagið fagnar því í umsögn sinni að fæðingarorlof verði lengt í tólf mánuði en kallar eftir því að réttur til fæðingarorlofs skiptist jafnt milli foreldra. Þannig fengju báðir foreldrar rétt á sex mánaða orlofi í stað þess að báðir foreldrar fái fimm mánuði og geti ráðstafað tveimur mánuðum til viðbótar að vild.
Þá er kallað eftir því í umsögninni að stjórnvöld byggi upp opinbera heilbrigðisþjónustu og haldi áfram markvissu átaki hjá heilbrigðisstofnunum ríkisins til að vinna niður biðlista eftir aðgerðum. Í umsögninni er einnig fjallað um vinnumarkað og #metoo, umönnunarbilið og fleira.
Lesa má umsögn BSRB um fjármálaáætlunina í heild hér.