Dómsmálaráðherra heimsótti Útlendingastofnun mánudaginn 21. ágúst og kynnti sér starfsemi hennar. Á móti ráðherra tók forstjóri Útlendingastofnunar Kristín Völundardóttir ásamt Írisi Kristinsdóttur, sviðsstjóra verndarsviðs, Veru Dögg Guðmundsdóttur, sviðsstjóra skrifstofu forstjóra og Öldu Karen Svavarsdóttur, sviðsstjóra leyfasviðs.
Heimsóknin hófst í Bæjarhrauni 18 en þar starfa rúmlega 40 manns að vinnslu umsókna og viðtölum á verndarsviði. Eins og kunnugt er hefur umsóknum um alþjóðlega vernd hérlendis fjölgað gríðarlega undanfarin ár. Umsóknir á síðasta ári voru samtals 4.519 og voru um 2.300 þeirra umsóknir um vernd vegna fjöldaflótta frá Úkraínu. Næst stærsti hópurinn er frá Venesúela. Áætlanir Útlendingastofnunar gera ráð fyrir að umsóknir um alþjóðlega vernd verða að lágmarki jafn margar á þessu ári og því síðasta þótt hægt hafi verulega á straumi fólks frá Úkraínu.
Að lokinni heimsókn í Bæjarhraun var haldið á Dalveg 18 í Kópavogi en þar vinna um 50 manns við aðrar leyfisveitingar en verndarumsóknir. Þar kom fram að verkefni Leyfasviðs séu móttaka og afgreiðsla umsókna um dvalarleyfi, ríkisborgararétt og áritanir, ábyrgð og úttektir á útgefnum vegabréfsáritunum, frávísanir og brottvísanir og útgáfa vegabréfa fyrir útlendinga og ferðaskilríkja flóttafólks.
Í máli stjórnenda kom fram að mikill árangur hafi náðst í sjálfviljugri heimför fólks sem ekki hefur fengið vernd. Aukin áhersla hefur verið lögð á upplýsingagjöf til umsækjenda sem fá nú allir símtal þegar máli þeirra er lokið. Gott samstarf hefur verið með IOM sem er alþjóðastofnun um flutninga fólks á milli landa og verið er að auka samstarf við Landamærastofnun Evrópu, Frontex.
Allt í allt starfa 110 manns hjá Útlendingastofnun og eru konur 70% starfsmanna. Að sögn stjórnenda eru brýnustu verkefnin fram undan að hraða stafrænni vegferð stofnunarinnar og er þegar unnið að verkefnum á því sviði.
Dómsmálaráðherra þakkaði starfsfólki Útlendingastofnunar fyrir vel unnin störf undir því gríðarlega álagi sem hefur fylgt auknum straumi flóttafólks undanfarin ár. Hún sagði meðal annars:
„Mér hefur þótt ánægjulegt að kynnast því frábæra starfsfólki sem vinnur hér. Það hefur örugglega ekki alltaf verið öfundsvert að sitja undir óvæginni og oft ómaklegri umræðu um þennan málaflokk og þessa stofnun. Það er mikilvægt að standa vörð um hvorutveggja, landamæri Íslands og alþjóðlegt verndarkerfi og þið eigið þakkir skildar fyrir ykkar þátt í því.“
Á myndinni eru Íris Kristinsdóttir sviðsstjóri verndarsviðs, Hreinn Loftsson aðstoðarmaður ráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, Kristín Völundardóttir forstjóri, Vera Dögg Guðmundsdóttir sviðsstjóri skrifstofu forstjóra og Alda Karen Svavarsdóttir sviðsstjóri leyfasviðs.