Fréttatilkynning frá Samtökum kvenna um nýja stjórnarskrá
Til hamingju Ísland! 25.000 undirskriftir! – Höldum áfram!
Þátttaka landsmanna í undirskriftasöfnuninni „Nýju stjórnarskrána strax!” hefur farið langt fram úr vonum og ekkert lát er á undirskriftum. Þess vegna hefur verið ákveðið að setja markið enn hærra og stefna að 30 þúsund undirskriftum fyrir 20. október.
Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá gerðu þrennt á baráttudegi kvenna 19. júní síðiastliðinn; söfnuðust saman í mæðragarðinum sungu fyrir Alþingi, þáðu heimboð Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands á Bessastaði og hrundu af stað undirskriftasöfnun undir yfirskriftinni „Nýju stjórnarskrána strax!“ Sjá: https://listar.island.is/Stydjum/74
Markmiðið var að safna 25 þúsund undirskriftum kosningabærra Íslendinga fyrir 20. október næskomandi, en þann dag árið 2012 samþykktu kjósendur að tillögur sem fyrir þá voru lagðar í þjóðaratkvæðagreiðslu skyldu verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár Íslands. 25 þúsund eru 10% kosningabærra Íslendinga og táknræn tala því ef nýja stjórnarskráin hefði þegar tekið gildi gæti þessi fjöldi lagt fram lagafrumvarp á Alþingi.
Það lýsir bágborinni stöðu í lýðræðisríki að almennir borgarar þurfi að krefja þjóðsþing sitt um að það virði úrslit kosninga sem það sjálft boðaði til fyrir bráðum átta árum. En sú er staðan á Íslandi. Gríðarleg þátttaka í undirskriftasöfnuninni sýnir hins vegar að landsmenn ætla ekki að sætta sig við þessa framkomu. Yfir 25000 þúsund kjósendur hafa nú þegar sýnt það í verki.
Við heitum á alla landsmenn sem vilja standa vörð um lýðræðisleg grundvallargildi og lýðræðislega stjórnarhætti að kynna sér kröfuna á www.nystjornarskra.is og skrifa undir.
Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá