Sjávarútvegssýningin SJÁVARÚTVEGUR 2022/ ICELAND FISHING EXPO 2022 var haldin dagana 21. til 23. september í LAUGARDALSHÖLL. Að sögn Ólafs M. Jóhannessonar framkvæmdastjóra sýningarinnar, heppnaðist sýningin mjög vel.
„Við vorum með mjög mörg sýningarpláss á sýningunni í ár og mikil ánægja var á meðal bæði sýningaraðila og gesta um hversu vel tókst til en uppselt var á sýninguna. Það voru allar tegundir af fyrirtækjum sem þjóna íslenskum sjávarútvegi með sýningarbása á sýningunni, bæði stærstu fyrirtækin á þessu sviði og svo minni. Þá var mikið af nýjum fyrirtækjum að koma inn á sýninguna í ár sem er vissulega ánægjulegt.“
Fréttatíminn heimsótti sýninguna og tók gesti og sýningaraðila tali og skemmst er frá því að segja að allir voru einstaklega ánægðir með hvernig til tókst. ,,Við erum gríðalega ánægðir fyrir hönd okkar fyrirtækis sem seldi vel á sýningunni.“ Sagði einn af sýnendum og bætti við ,,ég veit að það voru mjög mörg fyrirtæki að landa stórum og mörgum samningum á sýningunni og þá eru allir ánægðir.“
Ólafur M. Jóhannesson sagði í viðtali við Fréttatímann að það hefði verið góður andi á sýningunni og hann hefði haft spurnir af því að vel hefði gengið hjá þeim sem hann hefði heyrt í. Þá hafa fyrirtæki sem sýndu í ár, pantað sýningarpláss á næstu sýningu og auk þess hefðu fjölmörg ný fyrirtæki óskað eftir að fá að taka þátt á næstu sjávarútvegssýningu.