Sigmar Vilhjálmsson, athafnamaður og formaður Atvinnufjelagsins, lýsir yfir áhyggjum af því að Fríhöfnin í Leifsstöð muni komast í hendur erlendra aðila
Í janúar síðastliðnum lýsti Isavia því yfir að fyrirhugað væri að efna til forvals vegna útboðs á rekstri Fríhafnarinnar þar sem seldur er tollfrjáls varningur, meðal annars áfengi, tóbak og sælgæti.
Sigmar vekur athygli á þessu á Facebook-síðu sinni og spyr hvort íslenska þjóðin hafi fengið einhverjar fréttir af því að Fríhöfnin sé á leið í söluferli:
,,Ætli íslenska þjóðin hafi fengið einhverjar fréttir af því að Fríhöfnin í Leifsstöð sé á leið í söluferli? Já, það er víst verið að selja hana – en íslenskum aðilum er að sjálfsögðu nánast bannað að bjóða í. Hvers vegna skyldi það vera?
íslenskir áfengis- og sælgætisframleiðendur hafa hingað til notið Fríhafnarinnar sem sölupall fyrir vörur sínar og glæsilega kynningu fyrir sig og landið þegar 2,3 milljónir manns rölta þar í gegn, tvisvar. En auðvitað, þegar erlendur hæstbjóðandi tekur yfir, verður þeim örugglega alveg sama hvort áfengið, handverkið og súkkulaðið sé frá Íslandi eða einhverjum öðrum afskekktum stað. Hæstbjóðandi mun fá “dílinn” og hann mun líklega ekki gera upp sinn rekstur á Íslandi.
Þrjár smá spurningar að lokum:
1. Vissir þú, kæri Íslendingur, af þessari áætlun?
2. Ertu sátt(ur) við þetta?
3. Hver lagði þetta til?“