Um klukkan hálf ellefu í gærkvöld var tilkynnt um umferðaróhapp og afstungu við Bergþórugötu. Tjónvaldur var handtekinn skömmu síðar grunaður um ölvun við akstur, akstur mót einstefnu og fór ekki að fyrirmælum lögreglu. Hann var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Tilkynnt var um líkamsárás við veitingahús í miðbænum laust eftir klukkan eitt í nótt. Dyraverðir voru að vísa þremur mönnum úr húsi er mennirnir ráðast á þá og veita þeim áverka. Einn dyravörður fékk ítrekuð spörk í höfuðið og var fluttur með sjúkrabifreið á Bráðamóttöku. Annar dyravörður fékk glas í höfuðið og fór einnig á Bráðadeild til að láta gera að sári. Þriðji dyravörðurinn var með minni áverka, kúlu og mar við augabrún. Árásarmennirnir voru farnir af vettvangi þegar lögreglan mætti á svæðið.
Klukkan hálf fjögur í nótt var tilkynnt um slys á veitingahúsi við Laugaveg. Kona datt aftur fyrir sig af stól og rak höfuðið í ofn. Talið er að konan hafi misst meðvitund í stutta stund og fékk hún sár á hnakka og var hún flutt með sjúkrabifreið á Bráðamóttöku.
Þá voru bifreiðar stöðaðar þar sem ökumenn voru grunaðir um akstur bifreiða undir áhrifum vímuefna.