0.8 C
Reykjavik
Fimmtudagur - 2. febrúar 2023
Auglýsing

YouTube vinsælasti samfélagsmiðillinn 9-18 ára

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Næstum öll börn í grunnskóla (90%) og framhaldsskóla (93%) nota Youtube. Í 4.‐10 bekk samantekið fyrir grunnskóla eru næstu vinsælu samfélagsmiðlar Snapchat (72%) og TikTok (69%). Í framhaldsskóla eru tveir næstu miðlar Instagram (90%) og Snapchat (90%). Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um tækjaeign og virkni á samfélagsmiðlum meðal grunn- og framhaldsskólanema á aldrinum 9-18 ára.

Skýrslan er fyrsti hluti af sjö og byggir á niðurstöðum könnunarinnar „Börn og netmiðlar“ sem Menntavísindastofnun framkvæmdi fyrir Fjölmiðlanefnd í 23 grunnskólum og 23 framhaldsskólum. Er þetta í fyrsta sinn sem Fjölmiðlanefnd, í samstarfi við Menntavísindastofnun, birtir niðurstöður slíkrar umfangsmikillar könnunar. Fyrirhugað er að að gera sambærilega könnun á tveggja til þriggja ára fresti til að kanna miðlanotkun og færni barna og ungmenna þannig að hægt verði að bera saman niðurstöðurnar og hvernig notkun þróast.

Næstum öll börn í grunn- og framhaldsskóla eiga eigin farsíma

Næstum öll 9–18 ára börn eiga farsíma (95‐100%) og rúmur helmingur grunnskólabarna á spjaldtölvu, leikjatölvu, og/eða eigið sjónvarp. Aðeins 3% af 9‐12 ára börnum (4.‐7. bekk) segjast ekki eiga eigin farsíma. Á unglinga‐ og framhaldsskólastigi er far‐/tölvueign algeng (65% í 8.-10. Bekk og 97% í framhaldsskóla). Rúm 40% grunnskólabarna á báðum námsstigum eiga snjallúr sem hægt er að hringja með en hlutfallið lækkar í 29% í framhaldsskóla. Næstum öll börn (98%) hafa aðgang að eigin sjónvarpi eða deila aðgangi með öðrum á heimilinu. Um og yfir helmingur (51‐60%) 9‐18 ára barna eiga leikjatölvu tengda við sjónvarp (Xbox, Play- station eða svipað). Þónokkrir til viðbótar (18‐24%) hafa aðgang að leikjatölvu með öðrum í fjölskyldunni.

Næstum öll börn á aldrinum 9-18 ára nota YouTube

Næstum öll börn í grunnskóla (90%) og framhaldsskóla (93%) nota Youtube. Í 4.‐10 bekk samantekið fyrir grunnskóla eru næstu vinsælu samfélagsmiðlar Snapchat (72%) og TikTok (69%). Í framhaldsskóla eru tveir næstu miðlar Instagram (90%) og Snapchat (90%). Í 4.‐7. bekk nota meira en helmingur nemenda YouTube (88%), TikTok (59%), Snapchat (57%) og Roblox (52%). Instagram er aðeins notað af tæpum (29%). Í 8.–10. bekk eru næstu vinsælu samfélagsmiðlarnir á eftir YouTube (94%), Snapchat (93%), Instagram (89%) og TikTok (83%). Roblox er aðeins notað af 17% nemenda á unglingastigi.

Hátt hlutfall í yngsta aldurshópnum sem veit ekki hvort aðgangurinn þeirra er opinn eða lokaður á samfélagsmiðlum

Í yngsta aldurshópnum (4.-7. bekk grunnskóla) er hlutfall þeirra sem eru með lokaðan aðgang hærra en þeirra sem eru með opinn aðgang, fyrir utan YouTube þar sem 36% voru með opinn aðgang en 26% lokaðan. Þá er nokkuð hátt hlutfall í þessum aldurshópi sem veit ekki hvort aðgangurinn þeirra er opinn eða lokaður á Facebook (62%), Instagram (45%), YouTube (33%) og Snapchat (30%). Á unglingastigi (8.‐10. bekk) eru fleiri þátttakendur með lokaðan aðgang en opinn á öllum uppgefnum samfélagsmiðlum. Samanborið við yngsta aldurshópinn eru þó hlutfallslega fleiri í 8.-10. bekk sem eru með sína aðganga opna á Facebook, Instagram, TikTok og Snapchat. Framhaldsskólanemar eru í öllum tilfellum nema á Instagram fremur með lokaðan aðgang.

Rúmlega þriðjungur hefur séð eftir færslu sinni á samfélagsmiðlum

Þriðjungur nemenda í 8.‐10. bekk hefur séð eftir einhverju sem þeir deildu á samfélagsmiðlum. Meðal framhaldskólanema er hlutfallið aðeins hærra, eða 41%. Stelpur eru líklegri en strákar til að hafa séð eftir einhverju sem þær deildu á samfélagsmiðlum. Á unglingastigi grunnskóla er hlutfallið meðal stráka 28% en stelpna 38%. Í framhaldsskóla eru sambærilegar niðurstöður, 35% hjá strákum og 47% meðal stelpna.

Rúmlega helmingur líkar daglega við færslur

Dagleg virkni er tæplega helmingi fátíðari hjá börnum í yngsta aldurshópnum en meðal nemenda á unglinga‐ og framhaldsskólastigi. Vinsælast hjá öllum þremur aldurshópunum er að líka við færslur. Um fjórðungur nemenda 4.‐7. bekk líkar daglega við færslur, 49% í 8.‐10. bekk og í framhaldsskóla eru hlutfallið 61%. Rúmur þriðjungur nemenda í 8.‐10. bekk og í framhaldsskóla deilir myndum sem sýna andlit þeirra, en það er afar fátítt meðal nemenda í 4.‐7. bekk (9%). Í öllum hópunum þremur er nokkuð sjaldgæft að deila myndum í opnum hópum sem allir geta séð, 3% í 4.‐7. bekk, 8% í 8.‐10. bekk og 5% í framhaldsskólum. Almennt er minni virkni á samfélagsmiðlum meðal þátttakenda í 4.‐7. bekk en á unglingastigi (8.‐10. bekk) og í framhaldsskóla.

Notkun netsins við skólanám eykst með aldri

Hlutfall barna og ungmenna sem nota netið til að leysa skólaverkefni eykst með aldrinum, frá því að vera 7% sem gera það daglega í 4.‐7. bekk, 38% í 8.‐10. bekk og í framhaldsskóla eru hlutfallið komið í 74%.

Að fylgjast með tölvuleikjum og fólki að spila þá er vinsælast meðal yngsta aldurshópsins

Allir þátttakendur voru spurðir ýmissa spurninga sem tengjast áhrifavöldum, YouTube-stjörnum og bloggurum sem þau mögulega fylgja eða skoða á netinu. Að fylgjast með tölvuleikjum og fólki að spila þá er vinsælast meðal yngsta aldurshópsins og þar á eftir kemur að fylgjast með tónlist. Hins vegar er vinsælast meðal þátttakenda á unglinga‐ og framhaldsskólastigi að fylgjast með tónlist á netinu og tölvuleikjaspil kemur þar á eftir. Á öllum skólastigum hafa strákar meiri áhuga á íþróttum á netinu en vinsældir íþrótta minnka með aldri. Stelpur fylgjast meira en strákar með tísku og förðun, tónlist, mat, dýrum og raunveruleikastjörnum. Þó að strákar séu meira að fylgjast með íþróttum þá er hærra hlutfall stelpna sem fylgist með líkamsrækt á öllum skólastigum en hlutfallið hækkar í framhaldsskóla og á unglingastigi grunnskóla og verður 30‐35%.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á myndina af forsíðunni hér fyrir neðan