Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.
Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 15. – 21. janúar, en alls var tilkynnt um 27 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 15. janúar kl. 13.25 var bifreið suður Reykjanesbraut í Reykjavík, við Stekkjarbakka, og aftan á bifreið sem var ekið í sömu átt. Sól var lágt á lofti þegar slysið varð, en báðir ökumenn sögðust hafa skyndilega orðið fyrir sólarblindu og lítið séð fram á veginn. Ökumaður og farþegi úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Mánudaginn 16. janúar kl. 18.09 var bifreið ekið austur Suðurlandsveg, austan við Bláfjallaafleggjara, þar sem ökumaðurinn missti stjórn á henni. Bifreiðin valt tvær veltur út af veginum og hafnaði á vegriði. Hálka var á vettvangi. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 17. janúar. Kl. 8.15 var bifreið ekið norður Reykjavíkurveg í Hafnarfirði og á gangandi vegfaranda sem þveraði veginn á gatnamótum við Hraunbrún og Flatahraun. Ökumaðurinn sagði grænt ljós hafa logað fyrir akstursstefnu bifreiðarinnar og hann ekki séð dökkklæddan vegfarandann fyrr en of seint.
Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.22 var bifreið ekið frá athafnasvæði Orkunnar og beygt áleiðis í vinstri beygju suður Reykjavíkurveg í Hafnarfirði, en á sama tíma var annarri bifreið ekið Reykjavíkurveg til norðurs svo árekstur varð með þeim. Ökumaður fyrri bifreiðarinnar sagðist ekki hafa séð aðvífandi bifreið vegna sólarblindu. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 18. janúar. Kl. 7.57 varð gangandi vegfarandi fyrir strætisvagni á biðstöð við Kleppsveg í Reykjavík, vestan við Dalbraut. Hálka og snjór var á vettvangi og er talið að vegfarandinn hafi runnið til, en fótur hans hafnaði undir strætisvanginum. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.24 var bifreið ekið suður Dalveg í Kópavogi, á móts við veitingastaðinn Metro, og á gangandi vegfaranda, sem ýtti barnavagni á undan sér á gangbraut. Í aðdragandanum sagðist ökumaðurinn hafa blindast af sólinni. Vegfarandinn og barnið í barnavagninum voru flutt á slysadeild.
Laugardaginn 21. janúar kl. 17.37 var bifreið ekið austur Miklubraut í Reykjavík, á móts við Kringluna, og aftan á aðra, sem var kyrrstæð og mannlaus á miðakrein vegna bilunar og með „neyðarljós“ kveikt. Ökumaður og farþegi úr aftari bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.