Umsögn vegna frumvarps til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum. Þingskjal 787 – 466. mál – 151. löggjafarþing.
Í niðurstöðum álits Feneyjanefndarinnar frá 9. okt. 2020 við fyrri drög að þessu frumvarpi er að finna mikilvæg tilmæli til íslenskra stjórnvalda. Þar segir m.a. að stjórnvöld verði að útskýra fyrir þjóðinni undirliggjandi ástæður þess þegar vikið sé efnislega frá tillögum Stjórnlagaráðs sem samþykktar voru í þjóðaratkvæðagreiðslu sem grundvöllur nýrrar stjórnarskrár.
- 121. The Commission reiterates that it is not its role to intervene in a controversy on whether it is appropriate to offer Iceland an entirely new Constitution, or to adopt only limited constitutional amendments in a perspective of giving greater importance to constitutional continuity in the count However, it reminds that the 2012 draft, which the Commission examined in its 2013 Opinion on the draft new constitution of Iceland, was submitted to a -consultative- referendum and the draft was approved by the people as a basis of a new Constitution of Iceland. Therefore, the Commission considers that the Icelandic people should be given transparent, clear and convincing explanations for the government’s choices, and the underlying reasons for any substantive departure from the previous 2012 draft should be explained to the public. At the same time, the Venice Commission welcomes the great variety of public consultation mechanisms used in the current constitutional reform process.
Viðbrögð forsætisráðuneytisins voru að fela Lagastofnun HÍ að gera skýrslu sem fylgir sem viðhengi með frumvarpinu. Þar eru tillögur frumvarpsins bornar saman við sambærileg ákvæði sem er að finna í eldri frumvörpum um nýja stjórnarskrá frá 2011-2013 og frumvarpi um breytingar á gildandi stjórnarskrá frá 2016. Þó svo að skýrsla Lagastofnunar útlisti í löngu máli mismuninn á tillögunum þá bólar hvergi á útskýringum sem réttlætt gætu það að heildartillögum að nýrri stjórnarskrá sem þjóðin hefur lagt blessun sína yfir sé stungið undir stól. Hefur því áskorun Feneyjanefndarinnar hvað þetta mikilvæga atriði varðar verið hunsuð.
Álitamálið snýst mögulega um það hver stjórnarskrárgjafinn sé. Stjórnarskrárfélagið bendir á að samkvæmt vestrænum hugmyndum um lýðræði er hafið yfir allan vafa að þjóðin er stjórnarskrárgjafinn. Eða, með orðum Bjargar Thorarensen prófessors í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands og núverandi hæstaréttardómara: „Stjórnskipun Íslands byggist á þeirri grunnhugmynd vestrænna lýðræðisríkja að uppspretta alls ríkisvalds kom frá þjóðinni. Í því felst að þjóðin hefur endanlegt vald til að ákveða þær leikreglur sem handhafar ríkisvalds skulu fylgja. Með öðrum orðum; þjóðin er stjórnarskrárgjafinn.“
Aðfaraorð frumvarps Stjórnlagaráðs undirstrika þetta: „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. … Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“Í október 2012 tjáði þjóðin sig um hvaða stjórnarskrá hún vildi leggja til grundvallar, með eins skýrum hætti og lýðræðisleg umgjörð okkar býður upp á. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að með þeim hætti birtist vilji stjórnarskrárgjafans. Við vitum öll að þingkosningar snúast sjaldnast um stjórnarskrármál, og því er langsótt að ætla að draga ályktanir um vilja kjósenda um stjórnarskrá út frá því sem kemur upp úr kjörkössum í alþingiskosningum. Hins vegar liggur fyrir að í eina skiptið sem kjósendur hafa verið spurðir með skýrum, einangruðum og lýðræðislegum hætti um afstöðu til málsins var svarið afdráttarlaust.
Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar virðir hins vegar að vettugi þessa meginforsendu lýðræðis, að uppspretta valdsins sé hjá fullvalda þjóð og að þjóðin sé stjórnarskrárgjafinn. Í upphaflegri gerð gildandi stjórnarskrár frá 1874 fór ekki á milli mála hver stjórnarskrárgjafinn var á þeim tíma, enda sagði þar fremst í aðfaraorðum: „Vjer Christian hinn Níundi, af guðs náð Danmerkur konungur, Vinda og Gauta, hertogi í Sljesvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þjettmerski, Láenborg og Aldinborg, Gjörum kunnugt:“ Næstum
150 árum síðar byggir gildandi stjórnarskrá enn á sama grunni.
Lýðveldið Ísland var stofnað árið 1944 á grundvelli stjórnarskrár Kristjáns níunda, nær einungis með þeim breytingum sem beinlínis leiddu af sambandsslitunum við Danmörku. Gríðarleg áhersla var lögð á samstöðu um málið meðal þjóðarinnar og ekki þótti skynsamlegt að ræða aðrar breytingar en þær allra nauðsynlegustu. Þingmenn allra flokka á Alþingi lýstu því hins vegar yfir að stjórnarskráin yrði einungis samþykkt til bráðabirgða og hétu því að
það yrði forgangsmál eftir lýðveldisstofnun að ráðast í gagngera endurskoðun hennar og að
Íslendingar semdu sér nýja stjórnarskrá. Sú gagngera endurskoðun lét þó á sér standa og því búum við enn við „bætta flík“ sem sumir þingmenn vilja nú stagbæta með útvötnuðum tillögum á grundvelli breytingarákvæðis frá 19. öld. Þrátt fyrir að landsmönnum hafi loksins tekist að semja sér nýja stjórnarskrá þannig að eftir er tekið um allan heim.
Í þessu ljósi vill Stjórnarskrárfélagið koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri:
Það er atlaga að lýðræðinu að hunsa niðurstöður úr lögmætri þjóðaratkvæðagreiðslu og setur í leiðinni háskalegt fordæmi. Í raun kastar það mikilli rýrð á stöðu Íslands sem lýðræðisríkis og ónýtir það lýðræðislega tæki sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru í stefnumarkandi málum.
Það getur ekki verið hlutverk framkvæmdavaldsins að leggja línur um breytingar á stjórnarskránni og það getur heldur ekki verið hlutverk ráðamanna að setja sjálfum sér mörk um valdheimildir. Það fer illa á því að stjórnmálaflokkar ákveði sjálfir tilhögun kosninga og það er óásættanlegt að formenn stjórnmálaflokka fundi og semji sín á milli um breytingar á stjórnarskrá fyrir luktum dyrum.
Það er óheiðarlegt af ráðamönnum að halda því fram að stjórnarskrárbreytingar þurfi að gera í víðtækri sátt en láta svo eins og sú sátt eigi einungis við um þá sjálfa og umsvifamikla aðila. Er sátt útgerðarfyrirtækjanna mikilvægari en sátt yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar? Hvað með alla þá kjósendur sem veittu tillögum Stjórnlagaráðs brautargengi haustið 2012? Hvað með þá 43.423 borgara sem kröfðust lögfestingar nýju stjórnarskrárinnar 8 árum síðar? Hvað með þann meirihluta landsmanna sem ítrekað hefur lýst stuðningi við nýja stjórnarskrá í skoðanakönnunum? Sjá t.d. þá síðustu frá því í október 2020: https://maskina.is/vidhorf-til- nyrrar-stjornarskrar/
Staðreyndin er sú að meðal þjóðarinnar ríkir almenn, viðvarandi og víðtæk sátt um þær stjórnarskrárbreytingar sem kjósendur samþykktu 2012. Það er sú sátt sem skiptir máli. Ósætti meðal stjórnmálaflokka má ekki standa lengur í vegi fyrir því að lýðræðislegur vilji landsmanna nái fram að ganga.
Með frumvarpi þessu er lagt til auðlindaákvæði sem engu breytir um það hvernig þjóðin er hlunnfarin við auðlindanýtingu í sjávarútvegi en stjórnarskrárbindur það óréttlæti sem ríkt hefur í áratugi. Óásættanlegt er að gengið skuli með svo afgerandi hætti gegn margstaðfestum vilja meirihluta þjóðarinnar um að arðurinnaf sameiginlegum auðlindum renni að meginstofni til í okkar sameiginlegu sjóði en ekki í hendur örfárra útvaldra.
Aðspurðir lýstu formaður og allir þingmenn VG því yfir í aðdraganda síðustu alþingiskosninga að þeir teldu að þingmönnum bæri siðferðisleg og pólitísk skylda til að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi boðar til. Stjórnarskrárfélagið telur að útskýra þurfi ástæður þess að formaður flokksins gangi svo augljóslega á bak orða sinna og hvetur þingmenn til að standa við yfirlýsingar sínar: http://20.oktober.is/askorun/
Umrætt frumvarp gengur þvert gegn niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu og er alvarleg aðför að grundvallarstoðum lýðræðis og fullveldi íslensku þjóðarinnar. Stjórnarskrárfélagið sér því ekki ástæðu til að gefa efnislega umsögn um frumvarpið. Þó skal því haldið til haga að efnislega eru þessar tillögur almennt mun lakari fyrir hag almennings en samsvarandi greinar í frumvarpi Stjórnlagaráðs. Það frumvarp felur í sér djúpstæða málamiðlun þar sem 25
einstaklingar með ólíkar skoðanir og bakgrunn komu sér einróma saman um nýja stjórnarskrá sem almenningur tók virkan þátt í að móta. Það er stjórnarskrárfrumvarpið sem þjóðin hefur sagt að skuli vera grundvöllur nýrrar stjórnarskrár Íslands.
Fráleitt er að leggja fram frumvarp til stjórnarskrárbreytinga sem hunsar skýran vilja stjórnarskrárgjafans. Sá vilji hefur aðeins styrkst frá því hann kom fyrst fram í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012. Ljóst er að traust á Alþingi verður ekki endurreist fyrr en þessi grundvallarstofnun þjóðarinnar virðir vilja stjórnarskrárgjafans í verki.
Í ljósi alls ofangreinds krefst Stjórnarskrárfélagið eftirfarandi:
– Að Alþingi lögfesti nýju stjórnarskrána (frumvarp Stjórnlagaráðs). Frumvarpið, með nokkrum breytingum, var lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi af 17 flutningsmönnum og bíður nú afgreiðslu hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Sjá https://www.althingi.is/altext/151/s/0026.html
– Til vara: Að einungis verði mælt fyrir nýju breytingarákvæði við gildandi stjórnarskrá sem tryggja myndi stöðu þjóðarinnar sem stjórnarskrárgjafa. Stjórnarskrárfélagið myndi fúslega leggja fram tillögur að nýju breytingarákvæði ef þess væri óskað.
– Til þrautavara: Að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um fyrirhugaðar breytingar á gildandi stjórnarskrá samhliða komandi alþingiskosningum. Það væri með öllu óásættanlegt að gefa þjóðinni ekki færi á að samþykkja sérstaklega eða hafna þeim breytingum sem meirihluti Alþingis kann að vilja gera á stjórnarskránni, í ljósi þess sem að ofan er rakið.
Með kveðju, f.h. Stjórnarskrárfélagsins, Katrín Oddsdóttir, formaður.
https://gamli.frettatiminn.is/13/10/2020/30-000-undirskriftir-hreinsisveit-yfirvalda-raest-ut/