-0.2 C
Reykjavik
Laugardagur - 4. febrúar 2023
Auglýsing

Leiðtogar Atlantshafsbandalagsins funduðu um Úkraínu

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í dag þátt í fjarfundi leiðtoga Atlantshafsbandalagsins um þá stöðu sem upp er komin vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. Leiðtogar Finnlands, Svíþjóðar og Evrópusambandsins tóku einnig þátt í fundinum. Þá sat Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra einnig fundinn.

Í sameiginlegri yfirlýsingu leiðtoganna sem gefin var út eftir fundinn er allsherjarinnrás Rússlands í  Úkraínu, með stuðningi Belarús, harðlega fordæmd. Kallað er eftir því að Rússland stöðvi tafarlaust hernaðaraðgerðir og dragi allt herlið frá Úkraínu. Rússland hafi ítrekað hafnað diplómatískum leiðum, virði alþjóðalög að vettugi, þar með talinn Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, og innrás þeirra í Úkraínu sé alvarlegasta ógn við frið og öryggi Evrópu svo áratugum skiptir.

Í yfirlýsingunni er stuðningur leiðtoganna við Úkraínu, fullveldi og landamærahelgi landsins ítrekaður og skuldbindingar ríkjanna við þær grunnstoðir sem öryggi Evrópu hvílir á.

Forsætisráðherra ávarpaði fundinn og fordæmdi innrás Rússa í Úkraínu harðlega sem hún sagði vera skýrt brot á alþjóðalögum sem ætti sér enga réttlætingu. Hún sagði Ísland taka þátt í þeim efnahagslegu þvingunaraðgerðum sem gripið verður til gegn Rússlandi. Þá greindi hún frá ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að veita sem svarar einni milljón evra til mannúðaraðstoðar í Úkraínu og sagði Ísland reiðubúið að leggja meira af mörkum til að aðstoða almenna borgara: „Hernaðaraðgerðir Rússa valda ómældum hörmungum fyrir úkraínsku þjóðina sem bitna fyrst og síðast á saklausu fólki. Þetta stríð verður að stöðva þegar í stað,“ sagði forsætisráðherra.

Fyrr í dag tók forsætisráðherra þátt í samtali leiðtoga þátttökuríkja í Sameiginlegu viðbragðssveitinni (e; Joint Expeditionary Force, JEF) vegna hernaðaraðgerða Rússlands gegn Úkraínu.

JEF er samstarfsvettvangur líkt þenkjandi Evrópuríkja í öryggis- og varnarmálum þar sem öll Norðurlöndin eiga aðild, Eystrasaltsríkin, Holland og Bretland, sem leiðir samstarfið. Þátttaka Íslands er á borgaralegum forsendum eins og í öðru fjölþjóðasamstarfi á þessu sviði í samræmi við þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.