Tveir innbrotsþjófar voru handteknir í Kópavogi á laugardag eftir að tilkynnt var um innbrot í nýbyggingu í bænum.
Á vettvangi og í nágrenni hans var ekki á miklu að byggja og þjófarnir hvergi sjáanlegir, en þó mátti sjá einhver skóför og hjólför að auki.
Það var þó nóg til þess að lögreglumenn, sem sinntu útkallinu, komust á sporið, en það leiddi þá að íbúð annars staðar í bænum. Þar fyrir utan stóð bifreið, sem hafði geyma þýfið, en í íbúðinni voru tveir menn, annar á þrítugsaldri og hinn á fimmtugsaldri, og voru báðir handteknir í þágu rannsóknar málsins. Annar þeirra, húsráðandinn, var sakleysið uppmálað þegar spurt var út í innbrotið og hvort hann hann hefði eitthvað misjafnt að geyma á heimilinu.
Ekki reyndust svör hans sannleikanum samkvæm því í íbúðinni fannst talvert af fíkniefnum, sem lögreglan lagði hald á. Mennirnir játuðu báðir sök við yfirheyrslu á lögreglustöð, en að því loknu var hinum stolnu munum komið aftur í réttar hendur. Mestmegnis voru þetta verkfæri, en þjófnaðurinn var mjög bagalegur fyrir eigandann sem hefði lítið komist áfram við framkvæmdirnar án þeirra. Hér fór því allt vel, ekki síst af þeirri ástæðu að lögreglumennirnir sýndu mikla útsjónarsemi við að upplýsa málið.