Faðirinn er í málinu sakaður um sérstaklega hættulega líkamsárás og barnaverndarlagabrot, með því að hafa tilgreindan dag á heimili sínu veist með ofbeldi að syni sínum, sem þá var fjögurra ára gamall, er hann tók drenginn kverkataki með annarri hendinni og ýtti aftan á háls hans með hinni hendinni í því skyni að fá drenginn til að taka inn vítamíntöflu.
Afleiðingum þessarar háttsemi er lýst svo í ákæru að af þessu hafi barnið hlotið marbletti framan á hálsi, punktblæðingar í andliti og grunn rifsár framan á brjóstkassa ofarlega hægra megin. Með hinum áfrýjaða dómi var faðirinn sakfelldur samkvæmt ákæru að því frátöldu að ekki var talið sannað að ákærði hefði valdið rifsárum á brjóstkassa drengsins.
Maðurinn hefur játað að hafa tekið barnið kverkataki umrætt sinn til að fá hann til að taka inn vítamíntöflu, en neitar að hafa samtímis ýtt aftan á háls hans í því skyni.
Heimilislæknir sem skoðaði barnið eftir atvikið og gaf út læknisvottorð vegna áverk, kom fyrir héraðsdóm og gaf skýrslu. Hann bar fyrir dómi að marblettir framan á hálsi drengsins gætu vel komið heim og saman við að tekið hefði verið um háls hans ,,og nóg til þess [að] valda þrýstingi upp í höfuð með tilheyrandi punktblæðingum“. Læknirinn bar að til þess að punktblæðingar myndist í andliti þurfi töluvert tak sem þurfi að vara í ,,smá tíma“ en læknirinn kvaðst ekki geta sagt um það nákvæmlega hversu langan tíma það taki. Læknirinn kvað alltaf hættulegt að taka utan um háls á barni með þessum hætti. Hættan fælist í auknum þrýstingi sem myndaðist í höfðinu. Í þessu tilviki hefði ,,að einhverju leyti verið þrýstingur á karótís, sem sagt slagæðarnar líka. Þannig að blóðflæðið hefur verið að einhverju leyti skert.
Dómurinn horfði á myndbandsupptöku úr Barnahúsi 23. júní 2016, er barnið lýsti hvernig faðirinn bar sig að við að fá hann til að gleypa vítamíntöflu. Samkvæmt því og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er sannað að ákærði tók drenginn kverkataki eins og í ákæru er lýst. Í ákæru er háttsemi ákærða heimfærð undir almenn hegningarlög.
Ákvæðið tekur annars vegar til þess er stórfellt líkams- eða heilsutjón hlýst af árás, og hins vegar til þess er brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar sem notuð er. Varðar háttsemi sem heimfærð er undir ákvæðið allt að 16 ára fangelsi.
Í ljósi framburðar læknis þess sem kom fyrir héraðsdóm var sú háttsemi ákærða að taka fjögurra ára dreng slíku kverkataki að punktblæðingar mynduðust í andliti hans sérstaklega hættuleg. Verður ákærði samkvæmt framansögðu sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða í ljósi þeirrar aðferðar sem notuð var.
Sakaferill föðursins er réttilega rakinn í héraðsdómi. Háttsemi hans var hættuleg og beindist að ungu barni hans. Á hinn bóginn er, eins og rakið er í héraðsdómi, fram komið að hann hefur sárlega iðrast gerða sinna og lagði sitt af mörkum til þess að málið var upplýst.
Maðurinn hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárás gegn syni sínum sem hefur í málinu gert kröfu um greiðslu miskabóta sér til handa að fjárhæð 1.000.000 króna auk vaxta og dráttarvaxta. Drengurinn er ungur að árum og hafa ekki verið lögð fram sérfræðigögn um andlegar afleiðingar árásar ákærða á hann. Engu að síður er sú háttsemi ákærða sem hann hefur verið sakfelldur fyrir til þess fallin að valda honum miska, einkum í ljósi náinna tengsla brotaþola og ákærða. Samkvæmt framangreindu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um fjárhæð miskabóta og vexti og dráttaravexti. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, í báðum tilvikum að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Nánar:
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 776.030 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jónasar Jóhannssonar lögmanns, 496.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur lögmanns, 248.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, fimmtudaginn 11. maí
Mál þetta, sem dómtekið var 24. apríl sl., er höfðað með ákæru útgefinni af héraðssaksóknara 10. janúar sl. á hendur X, kennitala […], […], Reykjavík, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og barnaverndarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 4. júní 2016 á heimili sínu að […] í Reykjavík, veist með ofbeldi að syni sínum A, sem þá var fjögurra ára gamall, en ákærði tók drenginn kverkataki með annarri hendinni og ýtti aftan á háls hans með hinni hendinni í því skyni að fá drenginn til að taka inn vítamíntöflu. Af þessu hlaut A marbletti framan á hálsi, punktblæðingar í andlit og grunn rifsár framan á brjóstkassa ofarlega hægra megin.
Er þetta talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 98. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar
Af hálfu B, vegna ólögráða sonar hennar, A, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 4. júní 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi er mánuður er liðinn frá því bótakrafa var birt til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað.
Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst sýknu en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst hann sýknu af skaðabótakröfu, en til vara að hún verði lækkuð. Loks er þess krafist að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Með bréfi 9. júní 2016 fór Barnavernd […] þess á leit við lögreglu að fram færi rannsókn vegna gruns um að ákærði hefði beitt son sinn, brotaþola í máli þessu, ofbeldi er barnið var fjögurra ára gamalt. Í bréfinu er vísað til þess að tilkynningar hafi borist frá leikskóla barnsins og heimilislækni á heilsugæslunni […] þess efnis að drengurinn væri með mikla áverka á hálsi og í andliti eftir ákærða. Ákærði hafi komið með brotaþola í leikskólann, mánudagsmorguninn 6. júní 2016, og hitt deildarstjóra á leikskólanum í fataherbergi skólans og borið sig illa. Hann hafi greint frá því að brotaþoli hefði verið erfiður alla helgina. Ákærði hefði misst stjórn á sér og lagt hendur á brotaþola þegar hann hefði ætlað að gefa brotaþola inn vítamín. Ákærði hafi greint frá því að hann hefði verið harðhentur og væri miður sín. Í tilkynningu barnaverndar hafi komið fram að deildarstjóri hafi rætt við ákærða um aðrar leiðir til að takast á við erfiða hegðun. Deildarstjórinn hafi á þessum tíma ekki verið búinn að sjá brotaþola. Þegar deildarstjórinn hafi hitt brotaþola skömmu síðar og séð áverka á drengnum hafi henni brugðið en hún hafi lýst þeim sem ljótum áverkum á hálsi eftir kverkatak. Leikskólastjóri hafi í framhaldi verið í sambandi við barnavernd varðandi framhald málsins. Þar hafi m.a. komið fram að fara þyrfti með brotaþola til læknis í skoðun.
Heimilislæknir á Heilsugæslunni […] hefur 26. september 2016 ritað læknisvottorð vegna komu brotaþola á heilsugæsluna 7. júní 2016. Í vottorðinu kemur m.a. fram að við skoðun hafi brotaþoli verið með marbletti á hálsi og punktblæðingar í andliti. Hann hafi verið aumur þar. Þá hafi komið í ljós grunn rifsár framan á brjóstkassa ofarlega hæra megin. Marblettir á hálsi og punktblæðingar í andliti geti vel samrýmst kröftugu hálstaki og sé það m.a. nógu fast til að hafa áhrif á þrýsting upp í andlit með tilheyrandi punktblæðingu. Læknirinn hafi tekið myndir af drengnum sem hafi verið sendar barnavernd. Umræddar myndir eru á meðal rannsóknargagna þessa máls.
Fimmtudaginn 23. júní 2016 var tekin skýrsla af brotaþola í Barnahúsi á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Miðvikudaginn 6. júlí 2016 tók lögregla skýrslu af móður brotaþola.
Ákærði hefur skýrt svo frá að hann hafi […]. Hann hafi ekki jafnað sig eftir þau veikindi en þau hafi m.a. haft þau áhrif að hann skorti töluvert upp á allar fínhreyfingar. Ákærði hafi starfað í fyrirtæki sem vinir hans reki. Vegna sumarleyfa hafi hann leyst vin sinn af við rekstur fyrirtækisins í upphafi júní 2016. Því hafi fylgt mikið stress og áreiti. Á sama tíma hafi ákærði verið með brotaþola hjá sér. Umrætt sinn, sunnudaginn 5. júní 2016, hafi ákærða fundist hann þurfa að gefa brotaþola vítamín. Hann hafi gefið honum eina töflu, sem drengurinn hafi sagt að hann gæti ekki komið niður. Ákærði hafi í framhaldi brotið töfluna niður í hluta. Drengurinn hafi enn ekki viljað taka töfluna og ákærði þá gripið til þess ráðs að taka undir höku drengsins með annarri hendi og lyft henni upp. Um leið hafi hann, sennilega án þess að átta sig á því, lokað fyrir háls brotaþola þannig að drengurinn kom ekki töflubrotunum niður. Hann hafi hins vegar ekki tekið um háls brotaþola. Þrátt fyrir aðfarirnar hafi ekki tekist að fá drenginn til að kyngja töflubrotunum. Á þeirri stundu hafi skyndilega rofað til hjá ákærða og hann séð að hann hafi verið að gera rangt. Engin ástæða hafi verið fyrir ákærða að gera þetta með þessum hætti. Gæti hann illa útskýrt hegðun sína á annan veg en að hann hefði verið í einhvers konar vægu taugaáfalli eða einhverju slíku. Hann hafi einfaldlega tekið rangar ákvarðanir á þessum tíma. Þrátt fyrir þetta myndi hann atburðarásina umrætt sinn að mestu leyti. Hann hafi ekki endilega verið reiður er hlutirnir hafi gerst. Drengurinn hafi farið að gráta við aðfarirnar en hins vegar ekki kvartað undan verk eða slíku eftir atburðinn.
Á mánudagsmorgninum hafi ákærði farið með drenginn í leikskóla. Ákærða hafi liðið illa vegna atburðarins og rætt það við deildarstjóra sem tekið hafi á móti drengnum í skólanum. Hann hafi sagt deildarstjóranum hvað komið hefði fyrir daginn áður og sagt honum að hann hefði misst sig eitt augnablik. Hann hafi fyrst tekið eftir áverkunum á brotaþola er hann hafi sótt drenginn í skólann seinna þennan sama dag. Ákærði kvaðst ekki efast um að þeir áverkar er lýst væri í áverkavottorði varðandi brotaþola hafi komið til við þennan atburð. Hann kannist þó ekki við að rifsár á brjóstkassa hafi komið við þetta.
Ákærða hafi liðið ömurlega eftir atvikið. Móðir drengsins hafi sótt drenginn til hans á mánudagskvöldinu. Hann hafi rætt við hana um atburðinn og móðirin verið almennileg við hann. Hún hafi snúist einhverjum dögum síðar og bannað honum að hitta drenginn. Fyrir atburðinn hafi ákærði verið með venjubundna umgengni við son sinn aðra hverja helgi, frá fimmtudegi til mánudagsmorguns. Móðirin hafi komið í veg fyrir umgengni eftir atvikið og einungis leyft hana undir eftirliti. Ákærði kvaðst telja að mál þetta hafi sjatnað hjá syni sínum strax eftir atvikið og samband þeirra verið gott. Ákærði kvaðst hafa átt og eigi enn erfitt vegna þessa atviks og annarra áfalla í lífi sínu. Hann eigi eftir að vinna úr mörgu og sé alltaf að reyna að bæta sig. Hann væri reiðubúinn til að gera hvað sem væri til að viðlíka atburðir endurtækju sig ekki, eins og að fara á uppeldisnámskeið.
Brotaþoli gaf skýrslu í Barnahúsi 23. júní 2016. Í skýrslu brotaþola kemur m.a. fram að pabbi hans hafi reynt að fá hann til að taka inn töflu sem brotaþola hafi ekki fundist góð. Til þess að koma henni upp í hann hafi pabbi hans ýtt fast á háls hans. Við það hafi brotaþoli fengið litla dropa á hálsinn. Það hafi verið vont er pabbi hans hafi ýtt á háls hans báðu megin. Á myndskeiði af skýrslutökunni úr Barnahúsi sést er brotaþoli lýsir því er ákærði setti töflu í háls hans. Brotaþoli tekur sig kverkataki með annarri hendi en ýtir á sama tíma aftan á háls sinn með hinni hendinni.
Móðir brotaþola kom fyrir dóminn og lýsti því að brotaþoli hafi verið hjá föður sínum helgina 4. til 5. júní 2016. Á mánudagsmorgninum 6. júní 2016 hafi ákærði hringt í sig og greint frá því að hann hefði skammað brotaþola harkalega en ekki lýst háttsemi sinni nánar. Á mánudeginum hafi móðirin sótt brotaþola heim til ákærða. Hún hafi þá fyrst áttað sig á þeim áverkum er brotaþoli hafi verið með. Ákærði hafi viljað ræða hlutina en móðirin sem minnst viljað ræða þá þar sem hún vildi komast á brott með brotaþola. Brotaþoli hafi farið í leikskólann næsta dag og hún farið með hann til læknis. Ákærði og móðirin hafi rætt saman í síma eftir þetta og ákærði þá sagt móðurinni að hann hefði misst stjórn á sér og myndi ekki hvað gerst hefði. Móðirin kvað málið hafa haft áhrif á brotaþola. Svefnvandamál hafi komið upp í kjölfarið sem og skapgerðarvandamál. Í samráði við barnavernd hafi verið ákveðið að ákærði fengi ekki að hitta brotaþola nema undir eftirliti.
Heimilislæknir er ritaði læknisvottorð vegna brotaþola lýsti því að áverkar er brotaþoli hafi greinst með hafi samrýmst því að tekið hafi verið um háls hans. Töluverðu afli þyrfti að beita til að punktblæðing hlytist af. Við takið hefðu smáæðar sprungið. Halda þyrfti um háls í smá tíma til að til blæðingar kæmi, en við takið myndaðist bakþrýstingur sem orsakaði blæðinguna. Takið væri hættulegt og aldrei eðlilegt. Hættan fælist í þrýstingnum sem gæti orsakað blæðingu í höfði. Hættan færi eftir tímalengdinni. Læknirinn kvaðst ekki geta staðfest hvort rifsár framan á brjóstkassa hafi orsakast af kverkatakinu.
Deildarstjóri á leikskóla brotaþola lýsti þeim samskiptum sínum við ákærða að morgni mánudagsins 6. júní 2016, sem lýst er í bréfi Barnaverndar […], 9. júní 2016. Fram kom að ákærði hafi verið miður sín og því lýst að hann hefði misst sig gagnvart brotaþola.
Heimilislæknir ákærða lýsti heilsufarssögu hans […].
Fyrir dóminn komu tvö vitni sem bæði lýstu samskiptum ákærða og brotaþola. Það kom fram að ákærða hafi einungis verið heimilt að umgangast brotaþola undir eftirliti eftir atvikið í júní 2016. Það hafi haft slæm áhrif á ákærða að fá ekki að umgangast son sinn. Þá komu fyrir dóminn samstarfsmenn ákærða sem lýstu því að hann hafi í byrjun júní 2016, vegna sumarleyfa, haft umsjón með rekstri fyrirtækis þeirra. Starfinu hafi fylgt mikill erill, umsjón með útdeilingu verkefna, öflun nýrra verkefna og eftirlit með mannahaldi og reikningsgerð.
Niðurstaða:
Ákærða er gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa, laugardaginn 4. júní 2016 á heimili sínu, veist að brotaþola, syni sínum, með því að taka drenginn kverkataki með annarri hendi og að ýta aftan á háls hans með hinni í því skyni að fá drenginn til að taka inn vítamíntöflu. Á þessum tíma var brotaþoli fjögurra ára gamall. Afleiðingar árásarinnar urðu samkvæmt ákæru þær að brotaþoli hlaut marbletti framan á háls, punktblæðingar í andlit og grunn rifsár framan á brjóstkassa ofarlega hægra megin.
Ákærði viðurkennir að hafa veist að brotaþola umrætt sinn og að hafa valdið honum þeim áverkum sem lýst er, utan að ákærði kannast ekki við að rifsár á brjóstkassa hafi hlotist af hans völdum. Að því er verknaðarlýsingu ákæru varðar hefur ákærði lýst því að hann hafi sett hendi undir höku brotaþola og ýtt höfði hans aftur.
Við skýrslutöku í Barnahúsi sýndi brotaþoli ítrekað hvernig ákærði hefði tekið hann kverkataki með annarri hendi og ýtt aftan á háls hans með hinni í því skyni að fá hann til að taka inn vítamíntöflu. Að mati læknis er skoðaði brotaþola samrýmast áverkar á hálsi hans þessari lýsingu brotaþola. Miðað við þann framburð læknis að töluvert afl þurfi til svo punktblæðing verði í andliti fær ekki staðist að ákærði hafi einungis sett hönd undir kjálka brotaþola, svo sem hann hefur borið. Er sannað að ákærði tók drenginn kverkataki, svo sem í ákæru er lýst.
Afleiðingar kverkataks ákærða urðu punktblæðingar í andliti brotaþola. Í ljósi þess framburðar læknis að ekki sé unnt að staðreyna að grunn rifsár á brjóstkassa hafi komið til við það að ákærði reyndi að fá brotaþola til að taka töfluna verður því ekki slegið föstu að ákærði hafi valdið þeim áverkum. Læknir lýsti hættueiginleikum viðlíkrar háttsemi og ákærði viðhafði, en svo sem fyrr var rakið var brotaþoli einungis fjögurra ára gamall er atburðurinn átti sér stað. Sökum kverkataksins stöðvist blóðflæði frá höfði og niður þannig að bakþrýstingur orsaki punktblæðingar í andliti. Við það hafi skapast hætta á blæðingu í höfði.
Að mati dómsins var sú háttsemi ákærða að taka brotaþola kverkataki, svo sem í ákæru er lýst, sérstaklega hættuleg líkamsárás. Er þá einkum horft til þess að sú háttsemi að stöðva bakflæði blóðs frá höfði skapar hættu á blæðingu í höfði, sem er einstaklingsbundin og getur verið lífshættuleg í því tilliti. Ákærða mátti vera hættan ljós, auk þess sem hann var meðvitaður um skertar fínhreyfingar sínar. Var aðferð hans því stórhættuleg og mikil mildi að ekki hlaust alvarlegur skaði af. Í ákæru er miðað við að atvikið hafi átt sér stað laugardaginn 4. júní 2016. Ákærði heldur sjálfur fram að það hafi átt sér stað sunnudaginn 5. júní 2016. Kemur þetta ekki að sök og verður miðað við að atvikið hafi átt sér stað 4. eða 5. júní 2016. Með hliðsjón af þessu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði er fæddur […]. Hann á að baki talsverðan sakaferil og hefur margsinnis hlotið fangelsisdóma. Hér er ekki ástæða til að rekja ferilinn allan en rof kom í ferilinn á árinu 2005 sem stóð til 2010. Ákærði var með dómi héraðsdóms […] 2010 dæmdur í 3ja mánaða fangelsi fyrir umferðarlagabrot. Þá var hann dæmdur í sekt á árinu 2011 fyrir umferðarlagabrot. Loks var hann […] 2015 dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi til 2ja ára fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Með broti sínu í máli þessu rauf ákærði skilorð refsidómsins […] 2015. Verður að taka dóminn upp eftir ákvæðum 60. gr. laga nr. 19/1940 og dæma brotin í einu lagi.
Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að háttsemi ákærða var einkar hættuleg og beindist gegn ungu barni. Til hins er að líta að brotið hefur haft mikil áhrif á ákærða og iðrast hann mjög gerða sinna. Hann hefur skýrt skilmerkilega frá atvikinu og lagt sitt af mörkum til að málið upplýsist. Þá liggur fyrir að ákærði nýtur ekki venjulegrar reglubundinnar umgengni við son sinn, en umgengnin hefur verið undir eftirliti að því marki sem ákærði hefur nýtt sér hana. Með hliðsjón af öllu ofanrituðu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 7 mánuði. Í ljósi þess hvaða afleiðingar brotið hefur haft fyrir ákærða sjálfan og þess að brotaþoli á, lögum samkvæmt, rétt á umgengni við föður sinn þykir rétt að skilorðsbinda refsinguna, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Af hálfu brotaþola er gerð krafa um að ákærði greiði miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna, auk vaxta. Um bótagrundvöll er vísað til 26. gr. laga nr. 50/1993. Við ákvörðun miskabóta er til þess að líta að brotaþoli er ungur að árum. Þá liggja ekki fyrir dóminum sérfræðileg gögn um miska er brotaþoli hefur orðið fyrir. Brot af þessum tagi eru hins vegar til þess fallin að valda miska. Háttsemi ákærða hefur leitt til þess að brotaþoli á þess ekki lengur kost að umgangast föður sinn svo sem áður var. Hefur hans venjubundna líf því raskast af völdum ákærða, og ber ákærði bótaábyrgð á. Með hliðsjón af þessu verða miskabætur ákveðnar 400.000 krónur, sem ákærða ber að greiða svo sem í dómsorði er mælt fyrir um.
Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt yfirliti, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns, sem nánar greinir í dómsorði. Þá greiði ákærði þóknun skipaðs verjanda á rannsóknarstigi, svo sem greinir í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Á rannsóknarstigi ákvað lögregla að skýrslutaka í Barnahúsi yrði framkvæmd fyrir tilstilli Héraðsdóms Reykjaness. Málið var síðan óhjákvæmilega höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í ljósi þess að bæði er þar brotavarnarþing sem og heimilisvarnarþing ákærða.