Rétt upp úr klukkan 6 í morgun bárust björgunarsveitum á suðurlandi boð um að bíll hefði lent í Markarfljóti. Þegar björgunarfólk kom á staðinn var ökumaður bílsins kominn út úr bílnum, og hékk utan á honum. Gúmbátur var settur á flot á ánni og sigldi björgunarfólk að bílnum og kom tveimur að bílnum til aðstoðar. Ökumaður var einn í bílnum.
Björgunarfólkið sem komið var að bílnum gat komið ökumanni upp á þak bílsins, en hún var orðin köld og nokkuð skelkuð.
Þegar yfirvofandi hætta var í raun afstaðin, var tekin sú ákvörðun að bíða komu þyrlu sem hafði verið kölluð út nokkru áður, frekar en að freista þess að koma konunni kaldri og stirðri í gúmbátinn.
Þyrla LHG var á staðnum rétt upp úr klukkan 7 og hífði ökumanninn upp og flutti á brott.
Björgunarsveitir unnu svo að því að ná bílnum upp úr ánni, sem tókst tæpri klukkustund síðar.
Svo virðist sem ökumaður hafi farið á vegrið við brúna, þar sem það er leitt í jörð, og kastast þaðan út í ána. Straumurinn bar svo bílinn nokkuð niður ánna áður en hann stöðvaðist.
Umræða