Flugumferð um Keflavíkurflugvöll var stöðvuð tímabundið síðdegis vegna sprengjuhótunar um borð í Airbus-þotu frá þýska flugfélaginu Condor. Vélinni var snúið til Keflavíkur yfir Grænlandi á leið til Seattle í Bandaríkjunum. Þotan lenti á Keflavíkurflugvelli klukkan 16:22 síðdegis með 266 farþega um borð. Hún var á leið frá Frankfurt í Þýskalandi til Seattle í Bandaríkjunum, en var snúið við á flugi yfir Grænlandi til lendingar á Keflavíkurflugvelli. Þetta kemur fram í frétt rúv.is um málið.
Samkvæmt heimildum fréttastofu rúv, var sprengjuhótunin skrifuð á spegil á einu af salernum flugvélarinnar. Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum kemur fram að hótunin hafi borist íslenskum flugmálayfirvöldum klukkan 15:47. Farþegarnir voru ferjaðir úr vélinni á meðan aðgerðum lögreglu stóð og greiðlega gekk að rýma vélina að sögn lögreglu. Sérsveit ríkislögreglustjóra og sprengjuleitarteymi hafi verið kallað út vegna atviksins og að verið sé að grandskoða flugvélina til þess að tryggja að engin hætta sé á ferð. Keflavíkurflugvelli var lokað á meðan aðgerðum lögreglu stóð. Öllum brottförum og lendingum var frestað á meðan unnið var að því að ganga úr skugga um að engin sprengja væri um borð.
Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að sprengjusérfræðingar sérsveitar ríkislögreglustjóra ásamt sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar hafi lokið við að leita í farþegarýminu. Nú stendur yfir leit í lest vélarinnar og er sú leit tímafrek að sögn lögreglu. Ekkert óeðlilegt hefur fundist.