Þessa dagana er lögreglan m.a. við umferðareftirlit við grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu, en óhætt er að segja að ástandið sé ekki nógu gott. Hraðamælingar það sem af er vikunni sýna að brotahlutfallið í og við grunnskólana er hátt og full ástæða til að minna ökumenn á að aka hægar og sýna meiri tillitssemi.
Af einstökum hraðamælingum má nefna að meirihluti ökumanna ók of hratt hjá Fellaskóla, en þar var brotahlutfallið 51%. Við þrjá, aðra skóla ók um þriðjungur ökumanna, og rúmlega það, of hratt. Þessar hraðamælingar voru við Setbergsskóla, 36% brotahlutfall, Vogaskóla, 35% brotahlutfall, og Lágafellsskóla, 32% brotahlutfall. Um fimmtungur ökumanna, eða 21%, ók svo of hratt við Melaskóla, en á eina staðnum þar sem ástandið var nálægt því að vera í lagi var við Árbæjarskóla, en þar var brotahlutfall ökumanna 5%. Samtals voru 240 ökumenn staðnir að hraðakstri við áðurnefndar hraðamælingar, en fjórir þeirra eiga jafnframt yfir höfði sér sviptingu ökuréttinda vegna hraðakstursins. Tveir þeirra mældust á 71 km hraða, en í öllum tilvikum var um að ræða götur þar sem leyfður hámarkshraði er 30.
Ekki er ástæða til að ætla að ástandið sé eitthvað skárra við aðra grunnskóla í umdæminu og því vill lögreglan ítreka við ökumenn, enn og aftur, að þeir aki varlega, ekki síst í námunda við skóla enda margir þar á ferli, m.a. nýir vegfarendur sem eru að hefja skólagöngu.