Lagt hefur verið til að Landsfundur Vinstri grænna álykti að tímabært sé að slíta ríkisstjórnarsamstarfi Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Þetta kemur fram í drögum að ályktunum frá málefnahópum og félögum til umræðu og afgreiðslu á landsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.
Sjálfstæðisflokkurinn er aðeins með 13,4 prósenta fylgi og Vg mælist með aðeins 3,7 prósenta fylgi og þurrkast út af þingi ef skoðanakönnun Maskínu gengur eftir. Framsóknarflokkurinn er með 7,6 prósenta fylgi og ríkisstjórnin í heild með aðeins 24,7% fylgi þjóðarinnar.
Samfylkingin er með meira fylgi en allir stjórnarflokkarnir til samans og Miðflokkurinn mun stærri en Sjálfstæðisflokkurinn
Samfylkingin er með meira fylgi en allir stjórnarflokkarnir til samans og er enn stærst með 25 prósent samkvæmt könnuninni. Þá er Miðflokkurinn með 17% fylgi og er mun stærri en Sjálfstæðisflokkurinn.
Landsfundur VG fer fram helgina 4.-6. október.
„Landsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 ályktar að tímabært sé að horfa til þess að slíta ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Ríkisstjórnin var upphaflega mynduð árið 2017 í kjölfar óvæntra kosninga og í skugga pólitísks óróa. Þannig komst á festa í stjórnmálum undir forystu Vinstri grænna og hefur hreyfingin náð fram afar mikilvægum málum,“ segir í drögum að ályktuninni sem heldur áfram:
„Má þar nefna nýja þungunarrofslöggjöf, endurskoðun örorkulífeyriskerfisins, efling heilsugæslu, bætta réttarstöðu brotaþola kynferðisofbeldis, lög um kynrænt sjálfræði, gjaldfrjálsar skólamáltíðir,hömlur á jarðasöfnun, lenging fæðingarorlofs, friðlýsingar á náttúruperlum og þrepaskipt skattkerfi. Undir forystu Vinstri grænna var einnig brugðist við COVID-faraldurinn af ábyrgð, sem reyndist mikið gæfuspor fyrir þjóðina. Nú eru hins vegar önnur brýn verkefni fram undan og það er mat landsfundar að ekki sé unnt að takast á við þau í núverandi stjórnarsamstarfi.“