Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, fer yfir stöðuna almennt á Ísland á vef sínum, þar kennir margra grasa og er fróðleg lesning: Nýr Landsbanki á Hörpureit
,,Á meðan um 800 til 1.000 börn búa við óviðunandi aðstæður í iðnaðarhúsnæðum mætti byggja um 1.500 hagkvæmar íbúðir fyrir „Áætlaðan“ byggingarkostnað við nýjar höfuðstöðvar Landsbankans.
Á meðan 3.000 manns, hið minnsta, búa við óviðunandi aðstæður í ósamþykktu húsnæði með takmarkaðan aðgang að hreinlætis og eldunaraðstöðu lána lífeyrissjóðir milljarða í uppbyggingu á lúxushótelum.
Á meðan 50.000 þúsund samlanda okkar eru kúgaðir á leigumarkaði, vegna húsnæðisskorts, er rætt um að stofna 250 til 300 milljarða þjóðarsjóð.
Á meðan eldri borgarar komast ekki í þjónustuíbúðir, og eldri hjón jafnvel aðskilin í ellinni, tapa lífeyrissjóðirnir milljörðum í áhættufjárfestingum á borð við kísilver.
Á meðan 60 til 70 milljarða vantar til að leysa húsnæðisvandann eiga lífeyrissjóðirnir 4.324 milljarða. ,,Hugsanlega eitt stærsta fjársvikamál Íslandssögunnar”
60 til 70 milljarðar er sama upphæð og Bakkavararbræður höfðu af lífeyrissjóðunum og ríkisbönkunum á árunum 2015 til 2016. Og gerðu þá að einum ríkustu mönnum Bretlands.
Á meðan unga fólkið kemst ekki út á fasteignamarkaðinn, nema með veðláni foreldra, eru veiðigjöld lækkuð.
Á meðan risastór jaðarsettur hópur einstaklinga, sem missti allt sitt í hruninu, hefur hvorki lánstraust eða nokkur önnur úrræði til að komast inn á húsnæðismarkaðinn er kolsvört saga þeirra endurskrifuð af lobbíistum gerenda þeirra í nafni hvítbókar. Á meðan almenningi er haldið í gíslingu okurvaxta og verðtryggingar sem hvergi þekkist í siðmenntuðum löndum er norrænu samingamódeli um launalið kjarasamninga, tekið út fyrir sviga, og veifað framan í almúgan.
Er hægt að breyta þessu? Já!
Kostar það mikið? Nei!
Er það flókið? Nei!
Hvað er þá málið?
Er raunverulegur vilji stjórnvalda fyrir hendi? Kemur í ljós en það ætla ég svo sannarlega að vona!“ Segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.