Róbert Smári Gunnarsson sagði frá því fyrr í dag að fréttaflutningur Bylgjunnar og Vísir.is og svo DV um að faðir hans, Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, hefði verið drukkinn á sýningu Borgarleikhússins um Elly Vilhjálmsdóttur, vera kolrangan. DV hefur nú tekið fréttina út af forsíðu og hún finnst ekki lengur og Fréttastofa Bylgjunnar og Vísir.is hafa einnig fjarlægt fréttina og beðið Gunnar Braga afsökunar. DV birti frétt, upp úr frétt Bylgjunnar og Vísis þar sem vitnað var í það sem kom fram í þeirri frétt og hefur DV einnig beðið Gunnar Braga afsökunar á röngum fréttaflutningi.
Vísir hefur eins og áður segir fjarlægt fréttina og beðið Gunnar Braga afsökunar. DV gerir slíkt hið sama. Í yfirlýsingu á Vísi segir:
„Fréttastofan gerði mistök með því að birta fréttina áður en náðist í Gunnar Braga sjálfan eða heimildir fengust staðfestar og biðst afsökunar á því.
Fréttaflutningurinn var ekki samkvæmt ritstjórnarstefnu fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis og hefur fréttin því verið fjarlægð af vefnum.“
Forsaga málsins er sú að í hádegisfréttum hjá Bylgjunni er haft eftir viðmælendum að Gunnar Bragi, hafi verið drukkinn og kallað fram í á sýningunni um söngkonuna Ellý. Gunnar Bragi hefur sjálfur lýsti því yfir að hann hafi ekki bragðað neitt áfengi frá því að hið svokallaða Klaustursmál kom upp.
Róbert Smári sagði frá því á facebook síðu sinni að hann hafi verið á sýningunni með föður sínum ásamt Sunnu Gunnars Marteinsdóttur, konu Gunnars Braga, og segir hann þetta einfaldlega ekki vera rétt.
„Pabbi bragðaði ekki áfengi fyrir sýningu, né á sýningu og ekki eftir hana. Sýningin var góð, við skemmtum okkur vel, hann greip ekki fram í og var bláedrú, allir voru til fyrirmyndar,“ skrifar Róbert m.a. í færslunni. Hann spyr jafnframt hvort botninum sé náð og hversu lágt sé hægt að leggjast með svona fréttaskrifum. „Skrifa þetta með tárin í augunum, sár og reiður, að svona skuli nokkur skrifa án vísunar til sannleikans og að leggja þetta á okkur, okkur sem vitum að þetta er haugalygi.“
Færsluna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan en Fréttatíminn fékk leyfi til að birta hana.
Nú er mælirinn fullur. Hvenær er komið nóg?
Ég var á þessari sýningu með pabba og Sunnu þann 18. janúar. Pabbi bragðaði ekki áfengi fyrir sýningu, né á sýningu og ekki eftir hana.
Sýningin var góð, við skemmtun okkur vel, hann greip ekki fram í og var bláedrú, allir voru til fyrirmyndar. Og öll vorum við sammála að um einhverja flottustu sýningu sem við höfum séð væri að ræða.
Hversu lágt er hætt að leggjast? Hvenær er botninum náð? Hvað fær ,,blaðamann” til þess að halda þessu fram og búa svona til? Hvað ætla fjölmiðlar að leggja mikið á fjölskyldur stjórnmálamanna?!
Skrifa þetta með tárin í augunum, sár og reiður, að svona skuli nokkur skrifa án vísunar til sannleikans og að leggja þetta á okkur, okkur sem vitum að þetta er haugalygi.
Andskotans endemis vitleysa.
ATH. Fjölmiðlar mega ekki búa til frétt úr þessum pósti mínum nema með leyfi, og bið ég þá um að virða það. Þetta er mín síða.