12% aukning tilkynninga um heimilisofbeldi og ágreining milli ára, samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára
Nær 70% heimilisofbeldismála eru gegn maka eða fyrrverandi maka.
Ætlað er að 4% landsmanna verði árlega fyrir heimilisofbeldi og þar af tilkynni um fimmtungur þeirra tilvikin til lögreglunnar.
Aldrei fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi og ágreining til lögreglu en árið 2022
Ný skýrsla ríkislögreglustjóra um tilkynningar til lögreglu um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila fyrir árið 2022 hefur verið birt á vefsvæði lögreglunnar. Lögreglan á landsvísu fékk 2.374 tilkynningar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila árið 2022.
Jafngildir það að meðaltali tæplega 7 slíkum tilkynningum á dag eða 198 tilkynningum á mánuði.
Um er að ræða tæplega 12% aukningu samanborið við síðustu þrjú ár þar á undan og hefur fjöldi tilvika tilkynninga til lögreglunnar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila aldrei verið meiri.
Fjöldi beiðni um nálgunarbann svipaður
Beiðnir um nálgunarbann voru 118 og því svipaðar að fjölda og síðastliðin 3 ár á undan. Alvarlegustu heimilisofbeldismálin, þar sem lífi og heilsu árásarþola var ógnað endurtekið eða á alvarlegan hátt, voru 102 talsins árið 2022 sem er svipaður fjöldi og síðustu ár.
Heimilisofbeldi er skilgreint sem ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af hendi nákomins, þ.e. árásaraðili og árásarþoli eru skyldir, tengdir eða hafa sögu um tengsl og eru tilvikin ekki bundin við heimili fólks. Útköll lögreglu þar sem ekki er grunur um brot eru skráð sem ágreiningur á milli skyldra og tengdra. Mikilvægt þykir að skrá bæði ágreining og heimilisofbeldi til að fá heildstæða mynd af tilvikum og hvort tilvik leiði til ítrekaðra og alvarlegri atvika.
Oftar skráður ágreiningur
Þegar eingöngu er litið til heimilisofbeldismála, þ.e. tilvika þar sem grunur er um brot á borð við líkamsárásir, hótanir eða eignaspjöll, þá voru tilvikin 1.086, eða 3% fleiri en árið 2020 í miðjum heimsfaraldri. Tilkynningar um ágreining milli skyldra/tengdra aðila voru 1.288 talsins, eða 23% fleiri en árið 2021.
Í 78% tilvika heimilisofbeldis var árásaraðili karl og í 67% tilvika var brotaþoli kona. Þegar horft er til tilvika heimilisofbeldis þegar um er að ræða ofbeldi milli maka eða fyrrum maka eru 80% árásaraðila karlar og 77% brotaþola eru konur.
Um 2/3 málanna eru gegn maka eða fyrrverandi maka og um fimmtungur varðar foreldra og börn, ótengd aldri barns.
Skýrsluna má finna hér.
Aukin samvinna heilbrigðisþjónustu og lögreglu.
Í þolendakönnun lögreglunnar 2022 fyrir árið 2021 kom fram að 4,0% svarenda höfðu orðið fyrir heimilisofbeldi og 21% þeirra tilkynntu brotið til lögreglu.
Erlendar rannsóknir benda til þess að mun algengara er að þolendur leiti eftir heilbrigðisþjónustu en til annarra stofnana þ.m.t. lögreglu 12 mánuðum fyrir tilraun til manndráps eða morðs vegna heimilisofbeldis. Mikilvægt er að auka því samvinnu lögreglu og heilbrigðiskerfisins. Tveir sameiginlegir fræðslufundir lögreglunnar og heilbrigðiskerfisins um verklag vegna heimilisofbeldis voru haldnir í janúar. Þar var kynnt m.a. ný þjónusta félagsráðgjafa og sálfræðings á Landspítalanum og þverfaglegt samstarf við gerð áhættumats og áhættustýringar til að vernda þolendur heimilisofbeldis í samræmi við ákvæði Istanbúlsamningsins, samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi.
https://gamli.frettatiminn.is/21/01/2023/50-fedra-beittir-andlegu-ofbeldi-og-30-likamlegu-og-fjarhagslegu-ofbeldi/