Veðrið sem gekk yfir suðvesturhorn landsins dagana 19. og 20. desember hafði mikil áhrif á samgöngur, bæði alþjóðaflug og umferð til og frá flugvellinum. Starfshópur leggur til aðgerðir í sex liðum til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.
Í tilkynningu frá innviðaráðuneytinu kemur fram að lagðar hafa verið fram sex úrbótatillögur til að tryggja snör og fumlaus viðbrögð við erfiðar veðuraðstæður, líkt og þær sem sköpuðust í desember sl. Tillögurnar eru settar fram í skýrslu starfshóps, sem Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, skipaði en hlutverk hópsins var að greina atburðarásina 19. og 20. desember og hvað hefði betur mátt fara.
Tillögur starfshópsins eru í sex liðum:
- Áætlun verði gerð um hvaða tækjabúnaður er nauðsynlegur við aðstæður sem þessar og um samnýtingu tækjabúnaðar ólíkra aðila á svæðinu.
- Vaktstöð Vegagerðarinnar fái heimild til nauðsynlegra framkvæmda innan fyrirfram skilgreinda marka þegar aðstæður eru illviðráðanlegar.
- Vegagerðin, í samráði við ríkislögreglustjóra, setji saman verkferla um ákvarðanatöku og framkvæmd lokunar og opnunar vega, við aðstæður þegar lögregla ákveður að beita heimildum til lokunar.
- Vegagerðin setji saman verkferla um miðlun upplýsinga til almennings, hagaðila og viðbragðsaðila, hvort sem samhæfingarstöð hefur verið virkjuð eða ekki.
- Ráðherra veiti Vegagerðinni skýra heimild til að fjarlægja ökutæki sem hindra snjómokstur, trufla umferð eða vinnu við veg.
- Gerðar verði tilteknar breytingar á viðbragðsáætlun Vegagerðarinnar vegna Reykjanesbrautar í ljósi reynslunnar í desember. Í skýrslunni eru tiltekin nokkur atriði, s.s. að endurmeta þurfi staðsetningu lokunarpósta, skilgreina eigi skilvirkara samstarf við lögreglu og kanna eigi hvort skilgreina þurfi varaleiðir til að halda opnum þrátt fyrir lokun Reykjanesbrautar.
Í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra kemur fram að tillögur starfshópsins eru gagnlegar og munu nýtast þegar í stað við að gera nauðsynlegar breytingar á viðbragðsáætlun og skipulagi samskipta.
,,Þá hyggst ég virkja heimild umferðarlaga sem veitir Vegagerðinni heimild til að láta færa ökutæki sem valda truflunum við snjómokstur. Í skýrslunni er farið vel yfir atburðarásina og fulltrúar Vegagerðarinnar og lögregluyfirvalda hafa lagt sitt að mörkum til að finna leiðir til að bæta viðbragð við aðstæður sem þessar. Með samvinnu að leiðarljósi er það verkefni okkar að lágmarka eins kostur er þau áhrif sem válynd veður hafa óhjákvæmilega á samgöngur um hávetur,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Ekki hægt að koma í veg fyrir lokun – en betur hefði mátt standa að snjómokstri
Í skýrslunni segir að starfshópurinn telji að ekki hefði verið hægt að koma algerlega í veg fyrir lokun Reykjanesbrautarinnar, þegar horft væri til veðuraðstæðna á umræddu tímabili, og lögbundinna hlutverka Vegagerðarinnar og lögreglu er snúa að öryggi vegfarenda.
Starfshópurinn kemst á hinn bóginn að þeirri niðurstöðu að þótt Vegagerðin hafi fullnýtt mannskap og tæki til snjómoksturs á tímabilinu „hefði mátt betur átt standa að snjómokstri á Reykjanesbraut. Með fleiri tiltækum snjómoksturstækjum og snarpara viðbragði við að fjarlægja bíla sem sátu fastir í snjó hefði mátt stytta þann tíma sem brautin var lokuð. Þá hefði jafnframt mátt stytta lokunartímann ef til staðar hefðu verið tæki sem henta betur í að ryðja vegamót á brautinni en þau tæki sem Vegagerðin hafði yfir að ráða í slíka vinnu.“
Starfshópurinn telur að mögulega hefði verið hægt að opna Reykjanesbraut fyrr á mánudeginum ef sérstaklega hefði verið auglýst að leiðir til Grindavíkur og Voga væru ófærar þar sem öll áhersla hafði tímabundið verið lögð á að halda leiðinni til flugstöðvarinnar opinni á kostnað moksturs leiða til aðliggjandi byggðarlaga. Til þess hefði þó þurft mjög markvissa upplýsingaveitu til vegfarenda ásamt skýrri umferðarstjórn inn á og út af Reykjanesbrautinni.
Í skýrslunni telur starfshópurinn mikilvægt að halda því til haga að um leið og Reykjanesbraut þjónar stærsta alþjóðaflugvelli landsins þjóni hún einnig byggðarlögum sem tengjast brautinni. Á sama tíma og barist hafi verið við að halda Reykjanesbrautinni opinni voru vegir að og í byggðarlögum við brautina ófærir.
Starfshópurinn bendir á að þegar veðuraðstæður væru með þessum hætti væri þörf á að forgangsraða snjómokstri. Eðlilegt væri að skilgreina og skýra hversu mikil áhersla skuli vera á að halda leiðinni að flugstöðinni opinni, jafnvel á kostnað annarra verkefna.
Sem dæmi megi nefna að á meðan veðrið gekk yfir voru sjúkrabílar og lögregla kölluð til í hús sem ófært var að og þurftu viðbragðsaðilar m.a. að nýta sér aðstoð snjóbíls björgunar-sveitar til að sinna útköllum. Við forgangsröðun snjómoksturs verði að huga að getu viðbragðsaðila til að bregðast við neyðaraðstæðum. Hugsanlegt væri að minni tæki sem henti betur til snjómoksturs í hringtorgum gætu tryggt öryggi að þessu leyti með betri hætti.
Um starfshópinn
Starfshópurinn var skipaður fulltrúum frá Vegagerðinni, Ríkislögreglustjóra, lögreglustjóranum á Suðurnesjum og innviðaráðuneytinu. Fulltrúi ráðuneytisins stýrði vinnu hópsins. Hópurinn var skipaður fyrir jól strax eftir ófærðina 19. og 20. desember og átti að skila niðurstöðum innan mánaðar.
Samráð var haft við fjölmarga hagaðila við undirbúning skýrslunnar, þ.á m. fulltrúa Isavia, Landsbjargar, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sveitarfélaga á svæðinu, Samtaka ferðaþjónustunnar. Þá var leitað sérfræðiálits hjá Einari Sveinbjörnssyni, veðurfræðingi.