Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar hafa undirritað samning um ný foreldrafærninámskeið fyrir flóttafólk í sveitarfélaginu.
Reykjanesbær mun þróa og bjóða upp á sérhæfð foreldrafærninámskeið fyrir flóttafólk sem tala ekki íslensku og geta þ.a.l. ekki nýtt sér þau foreldrafærninámskeið sem þegar standa til boða. Megináherslan verður á fjölskyldur á flótta sem fengið hafa vernd á Íslandi en námskeiðið mun einnig standa breiðari hóp til boða, þ.e. innflytjendum sem ekki tala íslensku. Markmiðið er að auka farsæld fjölskyldna sem fengið hafa vernd og veita snemmtækan stuðning við þær sem lið í þjónustu Reykjanesbæjar við flóttafólk.
„Mikilvægt er að standa vel að móttöku flóttafólks og stuðla að farsælli inngildingu barnafjölskyldna í samfélagið. Markviss stuðningur við foreldra í uppeldi barna er ein arðbærasta fjárfestingin samkvæmt rannsóknum. Fyrir ári síðan undirritaði ég samning við Háskóla Íslands um slík námskeið í leik- og grunnskólum landsins. Mikilvægt er að námskeiðin standi öllum til boða, ekki síður flóttafólki og innflytjendum sem hafa ekki enn náð fullri færni í íslensku,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Á grundvelli samningsins mun Reykjanesbær þróa foreldrafærninámskeið í samráði við Barna- og fjölskyldustofu ásamt því að kynna og deila þeirri reynslu og þekkingu sem Reykjanesbær öðlast af verkefninu með öðrum sveitarfélögum. Þá leggur mennta- og barnamálaráðuneytið til fjármagn að ígildi eins stöðugildis til eins árs.