Endurskoða þarf og bæta verklag við meðferð innleiðingarfrumvarpa vegna EES-gerða. Þetta er niðurstaða Skýrslu um innleiðingu EES-gerða i landsrétt – Hefur „gullhúðun“ átt sér stað á málefnasviði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins á tímabilinu 2010 til 2022? sem dr. Margrét Einarsdóttir, prófessor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, vann að beiðni Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Greiningin var unnin eftir að hópur þingmanna, með Diljá Mist Einarsdóttur í broddi fylkingar, setti fram skýrslubeiðni þess efnis á Alþingi.
Í kjölfarið setti Guðlaugur Þór af stað vinnu við gerð skýrslu um það hvort „gullhúðun“ hafi átt sér stað á málefnasviði ráðuneytisins. Hugtakið gullhúðun er notað um það þegar stjórnvöld einstakra ríkja ganga lengra og setja íþyngjandi ákvæði umfram þær lágmarkskröfur sem gerðar eru í EES-gerðum við innleiðingu.
Blönduð innleiðingarfrumvörp nokkuð algeng
Rannsóknin fól í sér ítarlega skoðun á 27 stjórnarfrumvörpum sem innleiddu tilskipanir í íslenskan rétt og átta stjórnarfrumvörpum sem innleiddu reglugerðir. Einnig var skoðað hvort innleiðingarfrumvörpin væru hrein innleiðingarfrumvörp, þ.e. hvort þau innihéldu einungis ákvæði sem leiddu af skuldbindingum á grundvelli EES-samningsins, en fælu ekki jafnframt í sér „heimasmíðuð ákvæði“ (ákvæði sem eru ekki nauðsynleg vegna innleiðingar á viðkomandi EES-gerð).
Samkvæmt skýrslunni var í ellefu stjórnarfrumvörpum, eða í 41% tilvika, þar sem tilskipanir voru innleiddar í landsrétt, gengið lengra en lágmarkskröfur EES gerða kváðu á um. Hins vegar var „gullhúðun“ ekki beitt í þeim átta innleiðingarfrumvörpum sem innleiddu reglugerðir.
Samkvæmt íslenskum lögum og reglum er heimilt að hafa regluverk meira íþyngjandi, en ef slík ákvörðun er tekin eru gerðar kröfur um að tilgreina það sérstaklega og rökstyðja. Markmið þess er að löggjafinn, hagsmunaaðilar og almenningur séu skýrlega upplýst um slík áform.
Kynning á skýrslu um innleiðingu EES-gerða í landsrétt.
Að mati skýrsluhöfundar þarf að endurskoða og bæta verklag er varðar meðferð innleiðingarfrumvarpa, svo alþingismenn og hagsmunaaðilar séu upplýstir ef gera eigi meiri kröfur í innleiðingarlöggjöfinni en lágmarkskröfur EES-gerðanna kveða á um. Þannig megi fyrirbyggja tortryggni og stuðla að skilvirkara og vandaðra innleiðingarferli.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Það geta verið málefnalegar ástæður til að ganga lengra í löggjöf en kröfur EES-gerða kveða á um. En það er mjög alvarlegt, ólýðræðislegt og mjög íþyngjandi fyrir fólk og fyrirtæki að innleiða slíkt án þess að farið sé sérstaklega yfir það af þingi og þjóð. Skýrslan er vönduð og við munum í kjölfar hennar leggja til að verklagi verði breytt hjá ráðuneytum og þinginu. Jafnframt höfum við samið við dr. Margéti að halda verkefninu áfram og taka til skoðunar lög um mat á umhverfisáhrifum og gert er ráð fyrir að lagðar verði fram breytingar á þeim lögum á næstunni.“
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið mun bregðast við niðurstöðu skýrslunnar varðandi þau frumvörp sem virðast innihalda „gullhúðun“ samkvæmt skýrslunni með því að setja af stað vinnu við að endurskoða innleiðingu á EES-gerðum í löggjöf um mat á umhverfisáhrifum með það að markmiði að leggja fram frumvarp til að færa löggjöfina að EES-gerðum þ.e. nær því sem gerist í ESB þannig að regluverkið hérlendis sé ekki meira íþyngjandi en þar.
Jafnframt mun ráðuneytið leggja til við forsætisráðuneytið að breyta verklagi við undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa með hliðsjón af niðurstöðu skýrslunnar varðandi sérstakan kafla í greinargerðir stjórnarfrumvarpa um útfærslu á viðkomandi EES-innleiðingu.