Kortavelta Íslendinga hérlendis í janúar jókst um 5,8% á milli ára í janúar og nam alls 60,1 ma. kr. samanborið við 56,8 ma.kr. í sama mánuði í fyrra. Í verslun jókst veltan um 8% frá fyrra ári og nam alls tæpum 31 milljarði kr., vöxturinn er því nokkuð umfram verðbólgu.
Eftir hóflegan veltuvöxt í desembermánuði byrjar árið vel þegar litið er til heildarkortaveltu innlendra korta hérlendis. Sem fyrr færist verslun á netinu í aukana en veltuaukning netverslunar var tæp 20% samanborið við 7,6% veltuaukningu hefðbundinna búða. Litið til allrar veltu á netinu, það er þjónustu og verslunar var aukningin á netinu um 47% á milli ára í janúar.
Í dagvöruverslun og stórmörkuðum, stærsta einstaka verslunarflokknum, nam innlend kortavelta mánaðarins 12,7 milljörðum og jókst um 10,5% frá fyrra ári eða 1,2 milljarði í krónum talið. Athygli vekur að netverslun í flokknum dróst saman um 11,7% á milli ára í janúar. Samdrátturinn núna kemur í kjölfar ævintýralegs vaxtar í netverslun flokksins undanfarin misseri.
Kortavelta í fataverslun heldur áfram að aukast, sérstaklega á netinu. Í janúar jókst innlend kortavelta í fataverslun um 19% samanborið við janúar í fyrra en vöxtur í hefðbundnum búðum var um 16,5%. Velta fataverslunar á netinu ríflega tvöfaldaðist á milli ára í mánuðinum og var 111% meiri en á í janúar í fyrra. Heildarvelta innlendra korta í flokknum nam rúmum 2,2 milljörðum króna, rúmum 350 milljónum kr. meira en á sama tíma á síðasta ári.
Í flokki raf- og heimilistækja, var lítill vöxtur á milli ára. Keyptu Íslendingar raftæki fyrir rúma 2 milljarða og nam hækkunin 1,2% á milli ára. Þegar einungis er litið til verslunar í búð, dróst veltan saman um 0,7% frá fyrra ári. Netverslun í flokknum jókst þá um 27,9% í janúar miðað við fyrra ár.
Líkt og kom fram í fréttum nýverið, hefur gistinóttum Íslendinga fjölgað á hótelum síðastliðið ár. Þá þróun má sjá í kortaveltu Íslendinga. Í janúarmánuði síðastliðnum jókst veltan í hótelgistingu um 7,2% á milli ára. Á sama tíma jókst velta í eldsneyti um 7,7% frá fyrra ári. Hafa Íslendingar því líklega lagt land undir fót í mánuðinum.
Talnaefni
Gögn um kortaveltu Íslendinga hérlendis koma frá innlendum færsluhirðingaraðilum korta og öðrum greiðslumiðlurum. Gögnin byggja á sama grunni og kortavelta erlendra ferðamanna sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur reiknað og birt undanfarin ár.