Hlé hefur verið gert á leitinni að manni, sem talið er að ekið hafi bíl sínum út í Ölfusá um tíuleytið í gærkvöld að sögn fréttastofu Rúv. Vakt er enn á nokkrum stöðum við ána og nú er björgunarsveit að funda um málið. Lögreglu barst tilkynning um tíuleytið í gærkvöldi um að bíl hefði verið ekið út Ölfusá, á móts við Hótel Selfoss. Ummerki á vettvangi og brak í ánni studdu þann framburð og hófst þá þegar fjölmenn og umfangsmikil leit á og við ána.
Lögreglan telur sig vita hver það er, sem fór í ána, og hafa aðstandendur hans fengið aðstoð frá áfallateymi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
Á annað hundrað manns úr björgunarsveitum, lögreglu, slökkviliði og Landhelgisgæslunni tóku þátt í aðgerðum við erfiðar aðstæður; myrkur, hvassviðri og rigningu. Bátar voru notaðir við leitina og gengið eftir bökkum árinnar auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðaði við leitina. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, sagði í samtali við fréttastofu Rúv, að öllu hefði verið til tjaldað við leitarstörfin sem kostur var á.
Á fjórða tímanum í nótt höfðu leitarsveitir gengið bakka árinnar allt til Ósa, án árangurs, og var þá gert hlé á leitarstörfum en fólk sett á vakt á ákveðnum stöðum.