Í gær, 24. febrúar, er ár liðið frá því að rússnesk stjórnvöld hófu innrásarstríð sitt í Úkraínu. Alþjóðasamfélagið hefur komið saman á þessum tímamótum til að sýna úkraínsku þjóðinni stuðning í baráttu sinni.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók sem forseti ráðherranefndar Evrópuráðsins þátt í sérstakri dagskrá á vettvangi Evrópuráðsins í Strassborg, sem Ísland og Úkraína skipulögðu í sameiningu. Á opnum fundi ráðherranefndarinnar, sem utanríkisráðherra stýrði, samþykktu aðildarríkin að stíga fyrstu skref að stofnsetningu sérstakrar tjónaskrár vegna Úkraínu á vegum Evrópuráðsins. Tjónaskrá tæki til eignaskemmda, manntjóns og alvarlegra meiðsla sem innrás Rússlands í Úkraínu hefur leitt af sér og væri mikilvægur þáttur í því að tryggja að ábyrgðarskyldu fyrir Úkraínu yrði framfylgt.
„Nú hefur ólögleg, tilefnislaus og grimmileg allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu staðið yfir í heilt ár með tilheyrandi hörmungum. Árásir Rússa hafa beinst gegn almennum borgurum og nauðsynlegum innviðum og brýn þörf er til að skrá og skjalfesta það tjón sem hefur orðið á eignum og mannslífum. Þar getur Ísland og Evrópuráðið lagt sitt af mörkum. Við erum staðföst í því markmiði að niðurstaða leiðtogafundarins í Reykjavík skipti raunverulegu máli fyrir Úkraínu og ábyrgðarskyldu vegna þeirra brota sem Rússland hefur framið þar í landi,“ segir Þórdís Kolbrún.
Auk fundarins í ráðherranefndinni, sem er sá fyrsti sem haldinn er fyrir opnum tjöldum, tók Þórdís Kolbrún þátt í ýmsum viðburðum þar sem afleiðingar innrásarinnar, ábyrgðarskylda Rússlands og leiðtogafundurinn í Reykjavík í maí bar hæst. Hún hélt meðal annars opnunarræðu á sérstökum viðburði til heiðurs Úkraínu við fánaborg höfuðstöðva Evrópuráðsins, opnaði ljósmyndasýningu tileinkaða Úkraínu í Strassborg og flutti vefávarp á sérstökum fundi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE).
Í gær tilkynntu íslensk stjórnvöld jafnframt úkraínskum stjórnvöldum um þátttöku sína í kjarnahópi um stofnun sérstaks dómstóls um glæpi gegn friði í Úkraínu. Sjálfstæðar rannsóknanefndir sem settar hafa verið á laggirnar á vettvangi ÖSE og mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna hafa komist að þeirri niðurstöðu að Rússar hafi framið stríðsglæpi og víðtæk mannréttindabrot. Ísland var meðal þeirra ríkja sem vísaði aðstæðum í Úkraínu til Alþjóðlega sakamáladómstólsins og er rannsókn hafin á stríðsglæpum, glæpum gegn mannúð og hópmorðum sem framin hafa verið í Úkraínu. Samhliða þessu er rannsókn og saksókn mála tengdum stríðinu í Úkraínu vel á veg komin fyrir úkraínskum dómstólum.
Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri tók einnig þátt í umræðum í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York þar sem ályktun um réttlátan og viðvarandi frið í Úkraínu var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta.
Hér má lesa grein sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra birtu í Morgunblaðinu í dag til að ítreka stuðning stjórnvalda við Úkraínu. Nánar má lesa um stuðning íslenskra stjórnvalda við Úkraínu hér.