Fyrsta heimsókn kjarnorkukafbáts á vegum bandaríska sjóhersins í íslenska landhelgi fór fram fyrr í dag.
Bandaríski kjarnorkukafbáturinn USS San Juan kom í dag í stutta heimsókn á hafssvæðið norðvestur af Garðskaga til að taka kost á Íslandi. Landhelgisgæsla Íslands leiddi framkvæmd heimsóknarinnar í nánu samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra, Geislavarnir ríkisins og utanríkisráðuneytið.
Varðskipið Þór fylgdi kafbátnum frá því að hann kom upp á yfirborðið við mörk landhelginnar og fylgdi honum á meðan á heimsókninni stóð. Móttaka kafbátsins var vel undirbúin og framkvæmd í samræmi við verklagsreglur sem unnar voru í náinni samvinnu fyrrgreindra stofnanna og utanríkisráðuneytisins. Vel gekk að flytja kostinn um borð í kafbátinn.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tilkynnti 18. apríl sl. að kjarnorkuknúnum kafbátum bandaríska sjóhersins yrði heimilað að hafa stutta viðkomu úti fyrir ströndum Íslands til að taka kost og skipta út hluta áhafnar. Kafbátarnir sem fá heimild til að hafa hér viðdvöl bera ekki kjarnavopn samkvæmt stefnu Bandaríkjanna og eru ekki útbúnir til þess.
Þjónustuheimsóknir kafbáta sem sinna kafbátaeftirliti á Norður Atlantshafi stuðla að því að efla samfellt og virkt eftirlit bandalagsríkja sem tryggir betri stöðuvitund og eykur öryggi neðansjávarinnviða á hafsvæðinu í kringum Ísland. Íslensk og bandarísk stjórnvöld hafa á síðustu árum aukið samstarf vegna eftirlits og viðbúnaðar á Norður-Atlantshafi. Sá stuðningur sem fólgin er í að heimila komu kafbáta til þjónustuheimsókna við Ísland er liður í varnarskuldbindingum Íslands og mikilvægt framlag til sameiginlegra varna bandalagsríkja Atlantshafsbandalagsins.