Uppfært 26. apríl kl. 12:30
- Hluti hraunbreiðunnar nærri varnargörðum austan Grindavíkur heldur áfram að þykkna hægt og rólega
- Landris í Svartsengi heldur áfram á sama hraða
- Haldi kvikusöfnun áfram á svipuðum hraða eru meiri líkur á því að kraftur eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni aukist verulega
- Áfram er hætta á gasmengun á svæðinu. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá hér og loftgæðum.
Eldgosið við Sundhnúk heldur áfram og líkt og síðan 5. apríl er einn gígur, skammt austan við Sundhnúk, virkur. Hraun rennur stutta vegalend til suðurs frá gígnum í opinni hrauná en lengra í lokuðum rásum. Hluti hraunbreiðunnar nærri varnargörðum austan Grindavíkur heldur áfram að þykkna hægt og rólega.
Mynd úr vefmyndavél Veðurstofunnar sem tekin er kl. 4:30 í morgun skömmu fyrir sólarupprás. Myndavélin er staðsett uppi á Þorbirni og horfir til norðausturs í átt að gígnum.
Landris í Svartsengi heldur áfram á sama hraða og líkön gera ráð fyrir því að það magn kviku sem bæst hefur við kvikuhólfið í Svartsengi frá því að eldgosið hófst 16. mars nálgist nú 10 milljón m3 eins og línuritið hér að neðan sýnir. Í fyrri atburðum hefur kvika hlaupið frá Svartsengi þegar á bilinu 8 til 13 milljónir m3 hafa bæst við í kvikuhólfið frá síðasta kvikuhlaupi.
Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023.
Haldi kvikusöfnun áfram á svipuðum hraða eru meiri líkur á því að kraftur eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni aukist verulega.
- Nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og/eða núverandi gosop stækkar vegna skyndilegrar aukningu í hraunflæði sem gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.
- Einnig er mögulegt að kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og útstreymis þaðan og uppá yfirborð.
Einnig er mögulegt að það verði kvikuhlaup sem endi með því að nýjar gossprungur opnast annarsstaðar en á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Þessi sviðsmynd er talin ólíklegri en hinar og henni myndi fylgja töluverð skjálftavirkni og aflögun með meiri fyrirvara en undanfarin eldgos
Á miðvikudaginn, 24. apríl, framkvæmdu sérfræðingar Veðurstofunnar mælingar á gasútstreymi frá eldgosinu. Það ver metið 6-9 kg/s af SO2 en í síðustu mælingu sem gerð var fyrir tveimur vikum, 12. apríl, var gasútstreymið metið 10 –18 kg/s. Það eru ekki vísbendingar um að það sé að draga gasútstreymi út frá eldgosinu. Á meðan að eldgos heldur áfram getur flæði SO2 verið mjög breytilegt frá degi til dags (eins og í eldgosin við Fagradalsfjall sýndu). Áfram er hætta á gasmengun n á svæðinu umhverfis gíginn sem og í byggð á Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæðum og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.
Gosmengun (SO2) í andrúmslofti sést vel á gervihnattamynd frá í gær 25. apríl apríl kl 14:27.
Veðurspá gerir ráð fyrir norðan 5-10 m/s í dag, föstudag, og gasmengun berst því til suðurs frá gosstöðvunum og gæti orðið vart í Grindavík. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá hér.