Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda verður sett í sextánda sinn í dag í Skjaldborgarbíó á Patreksfirði. Hér verður kynnt samstarf Skjaldborgar og útgerðarfélagsins Odda.
Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda og útgerðarfélagið Oddi hf. hafa gert með sér langtíma samkomulag um stuðning Odda við hátíðina. Oddi hefur verið einn helsti bakhjarl Skjaldborgar frá upphafi en auk fjárstyrks við hátíðina hefur Oddi lagt til fisk í í tvær matarveislur á hátíðinni öll árin. Þær sameiginlegu máltíðir ásamt skrúðgöngu og skemmtanahaldi af ýmsum toga eru fastir liðir í því töfrandi andrúmslofti sem skapast á hátíðinni ár hvert.
Skjaldborg er meðal stærstu viðburða á Vestfjörðum og hefur meðal annars hlotið viðurkenninguna: Fyrirmyndarverkefni Sóknaráætlunar Vestfjarða 2021 og Eyrarrósina árið 2020 fyrir framlag sitt til menningar á landsbyggðinni. Þess má einnig geta að á fyrri árum hefur Skjaldborg tvívegis hlotið hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar, árin 2010 og 2018. Stjórn Skjaldborgar þakkar áframhaldandi veglegan stuðning Odda við hátíðina.
Myndir úr fiskiveislum:
Skjaldborg verður sett í sextánda sinn í dag í Skjaldborgarbíói, Patreksfirði. Allar frumsýndar myndir keppa um áhorfendaverðlaunin Einarinn, dómnefndaverðlaunin Ljóskastarann og hvatningarviðurkenningu dómnefndar. Frumsýndar verða 17 nýjar heimildamyndir, 5 verk í vinnslu verða kynnt, Kvikmyndasafn Íslands sýnir perlur úr sínu safni og Friðgeir Einarsson sýnir fyrirlestrarverkið blessbless.is.
Auk þess sitja heiðursgestir hátíðarinnar, þau Corinne van Egeraat og Petr Lom, fyrir svörum í sérstöku heiðursgestaspjalli í tengslum við sýningu tveggja verka þeirra á hátíðinni. Dagskrá og fleiri upplýsingar má finna á heimasíðu: https://skjaldborg.is
Umræða