
Dagbjört Rúnarsdóttir, sem ákærð er fyrir að hafa banað tæplega sextugum manni, sagði við sjúkraflutningamenn og vitni sem komu á vettvang að hana grunaði að eitrað hefði verið fyrir hundi sínum. Hún taldi þá einnig að hinn látni hefði drukkið úr vatnsdalli hundsins.
Þetta kom fram í aðalmeðferð málsins í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur og ríkisútvarpið fjallaði ítarlega um málið og vitnað er í fréttina hér að neðan.
Grunaði að eitrað hefði verið fyrir hundinum
Dagbjört hélt því fram við sjúkraflutningamenn og aðra að hana grunaði að eitrað hefði verið fyrir hundinum og að eitrinu hefði verið komið fyrir í vatnsdalli hans. Hún sagði þá að mögulega hefði maðurinn sem lést einnig drukkið úr vatnsdallinum.
Æla eða blóð var í öndunarvegi mannsins sem losaður var með sogi. Ýmislegt hafi komið upp úr manninum þegar sjúkraflutningamenn reyndu að barkaþræða hann. Einn sjúkraflutningamaður sagði að það sem kom upp úr manninum hefði ekki svipað til ælu.
Fram kom að maðurinn hefði verið settur í Lúkas sem er sjálfvirkt hjartahnoðtæki. Sjúkraflutningamaðurinn var aðspurður hvort tækið gæti hreyfst og tók hann fram að tækið gæti hreyfst niður líkamann í átt að fótum. Það hreyfðist hins vegar ekki í áttina að andlitinu.
Þeir sjúkraflutningamenn sem veittu skýrslu í Bátavogsmálinu í dag sögðu að mikil ringlureið hefði verið á vettvangi þegar þeir komu þangað. Margir viðbragðsaðilar hefðu verið á staðnum og í raun talsvert fleiri en vanalega. Sjúkraflutningamaður sagðist ekki geta útilokað að hann hefði myndað einhverja áverka á manninum. Öndunarvegur mannsins hafi verið stíflaður eða lokaður. Reynt hafi verið að barkaþræða manninn en það hafi ekki tekist.
Bráðatæknir sagði þá einnig að þegar hann hóf endurlífgun á manninum hafi verið lítil fyrirstaða vegna þess að brjóstkassi mannsins hafi verið mölbrotinn. Slíkt sé þó ekki undarlegt þegar endurlífgun hefur farið fram.
Endanleg krufningarskýrsla leiddi í ljós að dánarorsök mannsins hefði verið köfnun. Við réttarkrufningu mannsins komu í ljós miklir áverkar, dreifðir víðsvegar um líkamann og þónokkur beinbrot, meðal annars í nefi, hálsi, fingrum, rifbeinum og sköflungi. Töluverð innvortis blæðing hafi verið í axlarvöðvum og lærvöðva. Útlit áverkanna bendir til þess að þeir hafi komið við aðför annars einstaklings að honum í formi högga eða sparka í andlit, klof og búk, höggs í vinstri fótlegg og taks um hálsinn.
Áverkarnir skýrist ekki af eigin slysni heldur bendir allt til að þeir hafi verið til komnir við árás annars. Jafnframt kemur fram að áverkarnir séu nægilega veigamiklir til að valda dauða.
Bauð vinum að sjá lík hundsins
Einn maður bar vitni og kom hann ásamt öðrum vini Dagbjartar að heimili hennar eftir maðurinn sem síðar lést hafði verið fjarlægður með sjúkrabíl. Þeir hafi komið við stuttlega í íbúðinni. Hún hafi boðið báðum mönnunum drykk sem þeir hafi afþakkað. Hún hafi þá ætlað að taka hundinn sinn úr frystinum en mennirnir afþökkuðu að sjá hann.
Í vitnisburði mannsins kom fram að Dagbjört hefði hringt í félaga sinn og beðið hann að koma eftir að sjúkrabílar höfðu fjarlægt hinn látna, þó áður en hann lést.
Dagbjört hafi haldið því fram að eitrað hefði verið fyrir hundinum. Hún hafi þá einnig haldið því fram við mennina að mögulega hefði maðurinn drukkið sama vatn og hundurinn.
Vinur vitnisins sagði að stundum ættu Dagbjört og maðurinn það til að slást en væru annars gott fólk. Vitnið sagði að hann hefði óskað þess að hann hefði ekki farið heim til Dagbjartar. Stuttu eftir að mennirnir voru komnir kom lögregla aftur á vettvang og bað þá að yfirgefa heimilið að því er fram kemur í frétt rúv.is.
Dagbjört ákærð fyrir að svipta mann lífi með kvalarfullu ofbeldi