Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá fiskibáti sem staddur var 28 sjómílur vestur af Straumnesi eftir að leki kom upp í vélarrúmi hans. Einn var um borð í bátnum og fylltist vélarrúmið hratt.
Svo heppilega vildi til að bæði þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, og varðskipið Týr voru stödd á nálægum slóðum þegar neyðarkallið barst. Líf var við Straumnes og Týr var í Aðalvík.
Áhafnir Týs og Lífar héldu þegar í stað á vettvang auk þess sem björgunarskipið Gunnar Friðriksson var ræst út frá Ísafirði.
Skip í grenndinni voru einnig beðin um að halda á vettvang.
Þyrlan Líf var komin að bátnum um 13 mínútum eftir að neyðarkallið barst og áhöfn hennar bað skipverjann að fara strax í flotgalla. Hann kom sér svo yfir í fiskibát sem kom til aðstoðar og tók bátinn í tog. Varðskipsmenn hófu svo björgunaraðgerðir stuttu seinna. Greiðlega gekk að koma dælu frá varðskipinu fyrir í bátnum og skömmu síðar tókst að dæla sjónum úr vélarrúminu.
Fiskibátur sem staddur var í grenndinni kom til aðstoðar.
Þyrlan Líf var einungis um 13 mínútur á vettvang en hún var stödd við Straumnes þegar neyðarkallið barst.
Varðskipið Týr var statt í Aðalvík þegar beiðni um aðstoð barst. Dælur úr varðskipinu voru notaðar við björgunaraðgerðir. Mynd: Áhöfnin á TF-LIF. Myndir: Áhöfnin á TF-LIF.