Eldur er í stóru húsi við Bitruháls í Reykjavík og hefur allt tiltækt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins verið sent á staðinn. Búist er við því að enginn sé inni í húsinu en þar er margs konar starfsemi. Leit stendur þó enn yfir en slökkviliðið bíður eftir því að Orkuveitan slái út rafmagni í húsinu vegna láta og sprenginga í rafmagnstöflu sem eldurinn virðist vera í. Fréttin kom fyrst fram á mbl.is en þar segir að fyrsta tilkynning um eldsvoðann hafi borist klukkan átta mínútur í sex í kvöld og þegar tilkynningum fór að fjölga var allt tiltækt slökkvilið sent á staðinn.
Rafmagnið til vandræða
„Nú erum við að bíða eftir því að Orkuveitan komi þarna og slái út fyrir okkur húsinu. Eldurinn virðist vera í einhvers konar rafmagnstöflu. Það eru mikil læti og sprengingar frá töflunni svo við höfum ekkert verið að fara með okkar menn í voða inn í það,“ segir Sigurjón Hendriksson varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í samtali við mbl.is Hann segist búast við því að húsið sé tómt og hafi ekki fengið upplýsingar eða tilkynningar um neitt annað en leit stendur enn yfir.
Í húsinu er ýmis starfssemi, mjólkuriðnaður, kjötvinnsla og sælkerabúð.