Öllum fiski sleppt aftur
Vatnamótin eru eitt allra gjöfulasta sjóbirtingssvæði Íslands og það er okkur sönn ánægja að bjóða þau velkomin í ört stækkandi flóru félagsins. Um er að ræða hin frægu Vatnamót sem eru ármót Skaftár, Breiðbalakvíslar, Hörgsár og Fossála ásamt hinum ýmsu lækjum.
Árlega veiðast um 1500 sjóbirtingar í Vatnamótum. Til að stuðla enn frekar að dafnandi sjóbirtingsveiði hefur reglum svæðisins verið breytt á þann veg að eingöngu er leyfð veiði á flugu og skal öllum fiski sleppt.
Við erum gríðarlega spennt að sjá árangurinn af þessu breytta fyrirkomulagi og höfum mikla trú á að það muni efla þetta frábæra svæði til mikilla muna.
Veiðivarsla verður efld á svæðinu til þess að sjá til þess að þessum nýju reglum verði framfylgt. Þeim veiðimönnum og konum sem átt hafa holl í Vatnamótum verður að sjálfsögðu gefinn kostur á að halda þeim gegn því að fylgja þessu nýja fyrirkomulagi.