Jólaþorpið í Hafnarfirði verður opnað á morgun kl. 17, fyrsta föstudag í aðventu, og verður opið alla laugardaga og sunnudaga á aðventunni auk opnunar á Þorláksmessukvöld. Ljósin verða tendruð á jólatrénu á miðju Thorsplani fyrr um daginn í fámenni og er jólatréð sem fyrr gjöf frá Cuxhaven, vinabæ Hafnarfjarðar í Þýskalandi.
Færri komust að en vildu í jólahúsunum í Jólaþorpinu í ár og ljóst að þessi vinalegi og vinsæli jólamarkaður hefur stimplað sig inn í hug og hjörtu margra og er orðinn hluti af hefðum aðventunnar, bæði hjá söluaðilum í fallegu jólahúsunum og hjá gestum og gangandi. Jólasveinarnir koma í heimsókn í Jólaþorpið á laugardögum og Grýla verður á vappi um miðbæinn á sunnudögum.
Nýjungar í bland við það sem hefur alltaf slegið í gegn
Litlu fagurlega skreyttu jólahúsin í Jólaþorpinu í Hafnarfirði eru landsþekktur söluvettvangur fyrir ýmiss konar gjafavöru, handverk og hönnun sem tilvalið er að setja í jólapakkann ásamt gómsætum veitingum til að borða á staðnum og ljúfmeti til að taka með heim á veisluborðið. Kapp er lagt á að bjóða upp á fjölbreytta vöru og varning í jólahúsunum og er óhætt að segja að eftirspurn og aðsókn í jólahúsin í ár hafi slegið öll met. Í ár er bryddað upp á nýjungum auk þess að bjóða upp á vöru sem hefur slegið í gegn árum saman. Eldstæðið mun þannig t.d. vera með fullt hús af góðgæti frá smáframleiðendum sínum en Eldstæðið er atvinnueldhús fyrir matarfrumkvöðla og smáframleiðendur sem byggir á deilihagkerfinu. Hinn kraftmikli og metnaðarfulli ungi bakari Gulli Arnar, sem tekur samnefnt handverksbakarí í Hafnarfirði, mun bjóða sínar kræsingar til sölu allar helgar á aðventunni og það í fyrsta sinn. Bændurnir á Ytra-Hólmi munu standa vaktina í sínu húsi allar aðventuhelgarnar líkt og fyrri ár og bjóða til sölu beint frá býli ferskt og reykt lambakjöt, sósur og alls kyns meðlæti eins og kæfur. Þessir og fjöldi annarra spennandi söluaðila verða með jólahús í ár auk þess sem víkingafélagið Rimmugýgur verður með handverksmarkað rétt hjá Thorsplani fyrstu aðventuhelgina.
Óvæntar uppákomur og öðruvísi dagskrá
Óvæntar uppákomur og öðruvísi jóladagskrá verður undirtónn hátíðarhaldanna í Hafnarfirði þetta árið líkt og á síðasta ári. Áhersla er lögð á jólabæinn Hafnarfjörð og á ljósadýrð og skreytingar sem henta vel árferðinu og tryggja að allir geti notið aðventunnar af öryggi og án hópamyndanna. Andi jólanna hefur verið færður yfir á miðbæ Hafnarfjarðar í heild sinni og auðveldlega hægt að nýta heilu dagana á aðventunni til að upplifa og njóta í Hafnarfirði með heimsókn í Jólaþorpið, í jólaævintýralandið í Hellisgerði, verslun og þjónustu um allan bæ, ferð í sundlaugar bæjarins og á söfnin hvar aðgangur er ókeypis og njóta veitinga í þeirri fjölbreyttu flóru veitingahúsa og kaffishúsa sem hafa risið í Hafnarfirði síðustu misserin. Jólabærinn Hafnarfjörður tekur hlýlega á móti Hafnfiðringum og vinum Hafnarfjarðar.
Allar upplýsingar um Jólaþorpið í Hafnarfirði er að finna hér: www.jolathorpid.is