Icelandair hefur tilkynnt flugmálayfirvöldum í Cleveland í Bandaríkjunum að ekkert verði af flugi á milli Cleveland og Keflavíkur, sem hefjast átti í maí. Á vef fréttastofunnar Cleveland 19 er greint frá því að þetta sé vegna kyrrsetningar Boeing 737 Max flugvélanna, sem Icelandair notaði í flugið á milli borganna. Þetta kemur fram á rúv.is í dag.
Boeing kyrrsetti allar 737 Max þotur vegna galla í hugbúnaði flugvélanna. Talið er að gallinn hafi valdið tveimur hörmulegum flugslysum með fimm mánaða millibili, annars vegar í Indónesíu og hins vegar í Eþíópíu. Icelandair var með þrjár 737 Max 8 vélar í notkun, og er með þrjár til viðbótar skráðar sem ekki hafa enn verið teknar í notkun. Unnið er að uppfærslu hugbúnaðarins.
Umræða