
Um klukkan sjö í gærkvöld var bifreið stöðvuð í austurhluta Reykjavíkur þar sem farþegi í framsæti hélt á ungu barni ( uþb. 7 mánaða ) í fanginu. Þarna voru foreldrar barnsins á ferð með barn sitt og sögðu barnið hafa grátið mikið í barnabílstól sínum. Þá hafði faðirinn sem var farþegi losað barnið úr stólnum og sat með það í fanginu meðan móðirin ók bifreiðinni. Faðirinn hafði ekki verið með öryggisbelti sitt spennt á meðan á akstrinum stóð í borginni. Skýrsla var rituð um málið af hálfu lögreglu og tilkynning send til Barnaverndar.
Fjölmargar bifreiðar voru stöðvaðar á höfuðborgarsvæðinu í gær og í nótt þar sem ökumenn eru grunaðir um akstur bifreiða undir áhrifum áfengis og eða fíkniefna og einnig ítrekaðan akstur bifreiða sviptir ökuréttindum, þar af einn jafnframt um brot á vopnalögum..
Þá var tilkynnt um umferðaróhapp í Hafnarfirði. Engin meiðsl eru skráð en ökumaður bifreiðar ók á tvær kyrrstæðar bifreiðar og yfirgaf síðan vettvang. Atvikið náðist á eftirlitsmyndavél og er því vitað hver tjónvaldurinn er. Rætt var við tjónvald og honum kynnt að skýrsla verði rituð um málið.
Í nótt barst tilkynning um reiðhjólaslys í Garðabæ, um var að ræða mann sem hafði dottið af reiðhjóli. Maðurinn var með áverka á höfði og blóðugur í andliti og mundi ekki hvað hafði gerst. Maðurinn var fluttur með sjúkrabifreiða á Bráðadeild til aðhlynningar.
Afskipti voru höfð af ungum manni í annarlegu ástandi um miðnættið í efri byggðum Reykjavíkur. Ungi maðurinn fór ekki að fyrirmælum lögreglu, sagði ekki til nafns að kröfu lögreglu, hrækti í andlit lögreglumanns og er einnig grunaður um brot á vopnalögum. Haft var samband við forráðamann og Barnavernd og var ungi maðurinn síðan vistaður fyrir rannsókn máls á viðeigandi stofnun.