Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur karlmanni á sjötugsaldri fyrir kynferðisbrot gegn sjö ungum stúlkum. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í byrjun desember. Landsréttur framlengdi gæsluvarðhald yfir honum í byrjun mars þar sem hann grunaður um brot gegn fleiri stúlkum. Rannsókn þeirra mála er á lokastigi og reiknað er með að þau verði fljótlega send saksóknaraembættinu til ákvörðunar um saksókn. Fréttin birtist fyrst á rúv.is
Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir manninum kom fram að hann væri grunaður í 22 málum þar sem börn kæmu við sögu. þá hafi rannsókn lögreglu verið mjög viðamikil og fram kom í fréttum RÚV í byrjun árs að teknar yrðu skýrslur af um 30 börnum, bæði sem vitni og þolendur, og um 20 fullorðnum.
Saksóknari gaf síðan út ákæru á hendur manninum í byrjun mánaðarins þar sem hann er ákærður fyrir brot gegn sjö ungum stúlkum. Honum er gefið að sök að hafa viðhaft við þær kynferðislegt tal og sent sumum þeirra kynferðislegar myndir. Í tvö skipti er hann sagður hafa gert tilraun til að mæla sér mót við þær.
Héraðssaksóknari taldi brýnt að maðurinn sætti áfram gæsluvarðhaldi. Hann væri undir rökstuddum grun um að hafa nálgast börn ítrekað í kynferðislegum tilgangi í gegnum símtæki sem hann ætti auðvelt með að fá aðgang að væri hann frjáls ferða sinna. Yrði hann fundinn sekur væri viðbúið að hann fengi ekki skilorðsbundinn dóm enda væru öll brotin mjög alvarleg. Brot mannsins væru mörg og beindust að ungum stúlkum sem sumar væru langt undir kynferðislegum lögaldri. Þá yrði að horfa til þeirra aðferða sem maðurinn beitti og að brotin væru mjög gróf samkvæmt því er fram kemur í frétt rúv.is