Frávísunarkröfu Sigurðar Gísla Björnssonar í Sæmarksmálinu var hafnað fyrir héraðsdómi. Sigurður og tveir aðrir menn eru ákærðir fyrir umfangsmikil skattsvik.
Sigurður Gísli Björnsson, eigandi Sæmarks-Sjávarafurða var meðal annars ákærður fyrir meiriháttar skattalagabrot með því að láta undir höfuð leggjast að telja fram annars vegar úttektir hans úr rekstri Sæmarks upp á rúman milljarð og vanframtelja tekjur frá öðru félagi upp á 40 milljónir. Saksóknari segir Sigurð Gísla hafa komist hjá því að greiða tekjuskatt og útsvar upp á tæpan hálfan milljarð.
Rannsókn Skattrannsóknarstjóra á gögnum sem ríkið keypti árið 2015 og nefnd hafa verið Panamagögn hefur leitt í ljós stórfelld undanskot undan skatti í 57 málum. Alls hafði embættið lokið rannsókn í 89 málum árið 2018 og eru fjórtán enn í rannsókn. Vanframtaldir undandregnir skattstofnar nema alls um 15 milljörðum króna í þeim málum sem tengjast gögnunum.
Panamaskjölin eru gögn sem lekið var í byrjun árs 2016. Þau eru talin vera einn stærsti gagnaleki sögunnar; um 11 milljón talsins. Þeim var lekið frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca sem staðsett er í Panama. Mossack Fonseca er eitt viðamesta fyrirtækið í heimi aflandseyja, leynireikninga og skattaskjóla.
Íslendingar í Panama-skjölunum – Aflandsfélög í skattaskjólum?