Ríkisstjórnin er ekki að hækka nein gjöld eða skatta, eins formaður Framsóknarflokksins fullyrðir, heldur að tryggja að stofn veiðigjalds þ.e. aflaverðmæti í „viðskiptum“ tengdra aðila endurspegli raunverðmæti. Við það eitt að skattlagningin miðist við raunvirði, þá hefur það þessi jákvæðu áhrif til tekjuauka fyrir ríkissjóð.

Í raun er núverandi álagning hálfgerð vitleysa þar sem raunverð á markaði er ekki látið ráða heldur niðurstaða í samningum sjómanna og útgerðarmanna þar sem mjög hallar á sjómenn og á það sérstaklega við uppgjör á verðmæti uppsjávarfisks.
Hærri laun sjómanna skila sér með beinum hætti í útsvari til sveitarfélaganna
Það er æði undarlegt að sjá að ýmsir forystumenn sveitarfélaga eru að hlaupa á andstöðuvagnin við að raunverð ráði skattlagningu en ekki áfram eitthvert málamyndaverð. Miklu nær væri ef forystmennirnir tækju sér stöðu með ríkisstjórninni þar sem undirverðlagningin á aflanum hefur einnig bein áhrif á hafnargjöld og laun sjómanna til lækkunar. Hærri laun sjómanna skila sér með beinum hætti í útsvari til sveitarfélaganna.
Það er erfitt að skilja það að nokkur sem vilji láta taka sig alvarlega sé á móti málinu, en það er einfaldlega svo að stórútgerðin hefur nú slík tök á útgerðarplássunum að í uppgjöri við hafnarsjóði þá er ekki einungis látið nægja að gera upp á málamyndaverðinu sem er langt undir raunvirði heldur farið fram á sérstakan afslátt ofan á það.
Hvenær er nóg nóg?