Í Morgunblaðinu er gott yfirlit yfir þróun á fylgi flokka í Reykjavík frá borgarstjórnarkosningum 2014, birt eru úrslit þeirra kosninga og niðurstöður þriggja síðustu skoðanakannana um fylgi flokka.
Þetta yfirlit sýnir að það eru fyrst og fremst þrír flokkar, sem eru að tapa fylgi frá síðustu borgarstjórnarkosningum. Það eru Samfylking, Framsóknarflokkur og VG. Hins vegar er Sjálfstæðisflokkurinn að bæta við sig fylgi, Píratar bæta verulega við sig frá kosningunum fyrir 4 árum og eru orðnir þriðji stærsti flokkurinn í borginni og tveir nýir flokkar eru að ná árangri, þ.e. Viðreisn og Miðflokkurinn.
Núverandi meirihluti í Reykjavík hefur veikst svo mjög að hann heldur ekki velli nema fá Viðreisn til fylgis við sig, en sá flokkur er líklegastur til þess að koma til samstarfs við þá flokka, sem nú skipa meirihluta.
Það fer því víðs fjarri, að núverandi meirihluti í Reykjavík sé sæmilega öruggur um að halda um stjórnartaumana að kosningum loknum.
Reykjavík: Ekki óhugsandi að eitthvað óvænt eigi eftir að gerast
Þótt skoðanakannanir um þessar mundir sbr. könnun Fréttablaðsins gefi vafalaust vísbendingar um hvernig straumarnir liggja um þessar mundir í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík er varasamt að draga of miklar ályktanir af þeim.
Ástæðan er sú, að enn sem komið er, hefur lítið sést til nýrra framboða og það verður tæpast fyrr en frambjóðendur þeirra fara að sjást meira í sjónvarpi og þá í skoðanaskiptum við fulltrúa annarra flokka og frambjóðenda.
Inga Sæland sýndi í síðustu þingkosningum hvað getur gerzt á síðustu metrum kosningabaráttu, ef frambjóðandi slær í gegn í sjónvarpsumræðum, eins og hún gerði.
Það litla sem sést hefur til Höfuðborgarlistans bendir til þess að þar sé á ferð oddviti, Björg Kristín Sigþórsdóttir, sem hugsanlega gæti náð áþekkum áhrifum í sjónvarpi.
Sósíalistaflokkur Íslands er óþekkt stærð en af tali ungs fólks má ráða að einhvers konar sósíalísk „vakning“ geti verið á ferð meðal yngstu kjósenda. Hvort þeir mæti á kjörstað er svo annað mál.
Það er því ekki óhugsandi að eitthvað óvæntara eigi eftir að gerast í þessum kosningum en kannanir hafa bent til fram til þessa.
Segir Styrmir Gunnarsson f.v. ritstjóri Morgunblaðsins en hann fer daglega yfir stöðu mála og les í stöðuna í pólitíkinni. Fáir menn hafa jafn mikla reynslu og þekkingu til þess eins og Styrmir sem að hefur verið á vígvellinum og í hringiðu stjórnmálanna, lengur en flestir.