Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti í morgun opnunarávarp á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, Norðurlanda í fókus og utanríkisráðuneytisins sem ber titilinn „Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland?“. Stjórnmálamenn, sérfræðingar, fræðimenn og áhugamenn um alþjóðamál flytja þar erindi og taka þátt í fjölbreyttum umræðum um alþjóðasamvinnu.
Í ræðu sinni sagði Guðlaugur Þór mikilvægt að þing og þjóð stæðu saman gegn þeirri einangrunarstefnu sem nú ryður sér til rúms í Evrópu og á Íslandi. „Alþjóðleg samvinna og virk hagsmunagæsla er undirstaða þess að lífskjör og tækifæri hérlendis geti áfram orðið með því sem best sem gerist í heiminum,“ sagði Guðlaugur Þór. „Þar er samstarfið innan Evrópska efnahagssvæðisins lykilþáttur, sem og vestræn samvinna í þágu öryggis. Síðast en ekki síst felur þátttaka í alþjóðlegri samvinnu í sér viðurkenningu erlendra ríkja á því að Ísland sé frjálst og fullvalda ríki.“
Fyrsta málstofa dagsins fjallaði um áhrif ungs fólks á stjórnmál. Bergur Ebbi Benediktsson flutti erindi og sagði unga fólkið standa frammi fyrir stórum áskorunum sem ekki væri hægt að takast á við á grundvelli stjórnmálahefðar 20. aldarinnar. Najmo Fiyasko, nemi í FÁ og YouTube áhrifavaldur, sagði sögu sína en hún kom til Íslands sem flóttamaður frá Sómalíu og hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum fyrir baráttu sína fyrir réttindum kvenna í heimalandinu. Í kjölfarið fylgdu pallborðsumræður um áhrif ungs fólks þar sem sérstaklega var rætt um þær leiðir sem ungt fólk hefur til að hafa áhrif í nútíma lýðræðissamfélagi.
Nokkrir sérfræðingar og sendiherrar úr utanríkisþjónustunni eru meðal þátttakenda. Davíð Logi Sigurðsson, deildarstjóri mannréttindadeildar utanríkisráðuneytisins, flutti erindi um setu Íslands í mannréttindaráðinu. Eftir hádegið flytja Hjálmar W. Hannesson, fyrrverandi sendiherra, og Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, erindi í málstofu um Ísland, Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið á 21. öldinni, sem Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins stýrir. Jóhanna Jónsdóttir, sérfræðingur, tekur þátt í pallborðsumræðum um Brexit og Bryndís Kjartansdóttir, fulltrúi Íslands í embættismannanefnd Norðurskautsráðsins, tekur þátt í pallborðsumræðum um hernaðarumsvif á Norðurslóðum. Þá tekur Ragnar Þorvarðarson, sérfræðingur, þátt í pallborðsumræðum um samskipti Íslands og Asíu, en Ragnar stýrði einnig málstofu um áskoranir framtíðar og áhrif unga fólksins.
Streymi má viðburðinum má finna á vef Alþjóðamálastofnunar, en dagskrá stendur yfir til klukkan 17.15.
Ræðu utanríkisráðherra má finna hér.
https://www.fti.is/2019/04/09/hreinlegra-ad-ganga-bara-i-esb-heldur-en-ad-vera-med-halfkak/
https://www.fti.is/2019/04/15/sjalfstaedisflokkurinn-logar-i-illdeildum-vegna-orkupakka-3/